Urður Egilsdóttir
Ekkert nafn er komið á hraun eldgossins á milli Litla-Hrúts og Keilis að sögn Sigurðar Guðjóns Gíslasonar, formanns Landeigendafélags Hrauns, en eldgosið er í landi Hrauns.
Hraun eldgossins við Fagradalsfjall árið 2021 fékk nafnið Fagradalshraun en það er sveitarstjórn Grindavíkurbæjar að ákveða nafnið.
Sigurður nefnir að þá var haft samband við landeigendur vegna nafngiftarinnar.
„Ég veit ekki hvaða háttur verður á því núna eða hvernig þetta mun fara. Það mun örugglega skýrast á þróun næstu daga.“
Hann nefnir að alls konar kennileiti eru í kringum eldgosið sem gætu nýst ef hrauninu verður gefið nafn.
Fyrstu mælingar jarðvísindafólks hjá Jarðvísindastofnun HÍ voru birtar í kvöld.
Hópur frá Náttúrufræðistofnun og Jarðvísindastofnun flaug yfir gosstöðvarnar um kl. 18 í gær og tók lóðréttar loftmyndir af hrauninu með Hasselblad myndavél Náttúrufræðistofnunar.
Niðurstöður mælinganna eru að um 25 tímum eftir gosbyrjun var rúmmál hraunsins um 1,7 milljón rúmmetrar, sem samsvarar því að meðalhraunflæði þessa 25 tíma hafi verið um 18-20 m3/s.
Rennsli var mest á mánudagskvöld og líklega var hámarksrennslið yfir 50 m3/s. Sennilega var hraunrennslið komið nálægt 15 m3/s síðdegis þann 11. júlí.
Þá er efnasamsetning hraunsins af svipaðri gerð og hraunið sem kom upp í lok gossins 2021 og þess sem gaus í ágúst í fyrra.
Áætlað er að safna meiri upplýsingum á næstunni og fylgjast með þróun hraunrennslisins.