Fjárstuðningur við björgunarsveitir hugsanlegur

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Óttar

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir að ráða þurfi landverði til starfa á gosstöðvarnar við Litla-Hrút sem allra fyrst. Umhverfisstofnun hefur auglýst eftir landvörðum til tímabundinna starfa og rennur umsóknarfresturinn út í lok næstu viku.

Guðrún segir í samtali við mbl.is í dag að hún telji að Umhverfisstofnun muni reyna að ráða fólk hratt og örugglega og gerir frekar ráð fyrir því að ef hæfir landverðir fást til starfanna verði þeir ráðnir inn áður en umsóknarfrestur rennur út.

Á mánudagskvöld, að kveldi dagsins þegar sprungan opnaðist við Litla-Hrút, sagði dómsmálaráðherra í sínum huga óhjákvæmilegt að grípa fyrr inn í en gert var við gosin í fyrra og hitteðfyrra og nefndi hún bæði landverði og björgunarsveitir í því samhengi.

Ríkisstjórn kemur saman á föstudag

Ráðherra segir að nú sé verið að bregðast fyrr við. Segir Guðrún ríkisstjórnarfund vera á dagskrá á föstudag.

„Þar munum við fara mjög vel yfir málið og stöðuna og hvernig eigi að bregðast við.“

Hún segir að vitaskuld þurfi að taka tillit til aukins álags á björgunarsveitirnar og sérstaklega á björgunarsveitirnar á Suðurnesjum og í nágrannasveitarfélögum.

„Þetta er ekki fyrsta gosið heldur þriðja gosið þriðja árið í röð og það er auðvitað mikið álag. Fólk er í sumarfríum og það er mikið álag á fáum.“

Ekki hægt að stefna lífi og limum viðbragðsaðila í hættu

Segir Guðrún landið yfirfullt af ferðamönnum og ofboðslega mikið álag á viðbragðsaðilum hringinn í kringum landið á öllum ferðamannastöðum.

„Nú bætist við enn einn ferðamannastaðurinn og þá verðum við að bregðast við líka hvernig við ætlum að tryggja öryggi fólks,“ segir hún og staðfestir að hugsanlega sé horft til fjárstuðnings til björgunarsveitanna að einhverju leiti en tekur fram að slíkt verði rætt á ríkisstjórnarfundi á föstudag.

Hæglega geta komið upp þær aðstæður við gosstöðvarnar að björgunaraðilar geti ekki aðstoðað fólk að sögn Guðrúnar. Hún segir að ekki sé hægt að setja viðbragðsaðila í hvaða tilfelli sem er og stefnt lífi þeirra og limum í hættu.

Björgunarsveitarfólk við gosstöðvarnar.
Björgunarsveitarfólk við gosstöðvarnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ef fólk sýnir mjög óábyrga hegðun þá þurfum við að reiða okkur á þyrlur og þær þurfa þá að vera til staðar en þær eru ekki alltaf til taks eins og við höfum séð þegar þeirra hefur verið þörf úti á landi í hörmulegum slysum. Þannig verður fólk, sem ætlar að gosstöðvunum, að sýna mikla ábyrgð og fyrst og síðast þarf fólk að bera ábyrgð á sjálfu sér.“

Guðrún segir ekki hafa verið lagðar línur eða mótað ítarlegt verklag um hvers kyns tilfelli viðbragðsaðilum verði ekki hætt út í og að lögregla og viðbragðsaðilar muni meta hvert einstakt tilvik út af fyrir sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka