Gróðureldur af mannavöldum nærri gosinu

Mikill reykur hefur verið á gönguleiðinni að gosinu í dag.
Mikill reykur hefur verið á gönguleiðinni að gosinu í dag. mbl.is/Hákon Pálsson

Kviknað hefur í mosa fjarri eldgosinu, við gönguleið, og má því leiða líkum að því að eldurinn sé af mannavöldum. Þetta segir Hjálmar Hallgrímsson vettvangsstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum.

„Þetta var bara mosabruni í gönguleið. Það má leiða líkum að því að einhver hafi kastað sígarettustubbi eða slíkt, sem er bara alveg nóg.“ Lögreglan fór að eldinum til þess að kanna hvort ný sprunga væri að opnast en svo reyndist ekki vera.

Kviknað er í gróðri nærri gossvæðinu. Mynd úr safni.
Kviknað er í gróðri nærri gossvæðinu. Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Unnið að því að slökkva eldinn

„Þessi eldur er klárlega af mannavöldum. Hann er talsvert fyrir utan brunaslóðina sem er eftir eldgosið sjálft. Það er stór partur í kringum sprunguna sem er logandi mosi og við vitum af því en þetta er töluvert fjarri eldgosinu.“

Spurður hvort slökkvistarf sé hafið á svæðinu segir Hjálmar: „Það er verið að vinna að því að koma vatni upp eftir og slökkva í þessu. Við viljum biðja fólk að fara varlega með eld á þessu svæði, því það er svo ofboðslegur þurrkur að það kviknar í alveg um leið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert