Grunur um nóróveirusýkingu á Fabrikkunni

Óskar segir tólf tilkynningar hafa borist vegna staðarins í Kringlunni …
Óskar segir tólf tilkynningar hafa borist vegna staðarins í Kringlunni og eina vegna staðarins í Katrínartúni. mbl.is/Styrmir Kári

Um þrettán tilkynningar hafa borist heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur vegna mögulegrar matareitrunar á stöðum Hamborgarafabrikkunnar í Reykjavík. Vinnutilgáta eftirlitsins er sú að ef til vill sé um tilfelli nóróveiru að ræða. 

Þetta staðfestir Óskar Ísfeld Sigurðsson, deildarstjóri matvælaeftirlits hjá eftirlitinu. 

Hann segir tilfellin á stöðum Hamborgarafabrikkunnar í Kringlunni, sem eru tólf talsins, og eitt tilfelli á staðnum í Katrínartúni, geta snert um þrjátíu manns. Starfsfólk heilbrigðiseftirlitsins hafi þegar farið í Kringluna. Stjórnendur veitingastaðarins hafi sjálfir ákveðið að loka veitingastaðnum í Kringlunni en Vísir greindi fyrst frá því.

Staðurinn fái ekki að opna aftur án samþykkis

Staðurinn verður þó ekki opnaður aftur án samþykkis heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Rannsókn á málinu standi nú yfir.

„Okkar vinnutilgáta er sú, í samráði við þá sem koma að rannsókninni, að þetta gæti verið nóróveira,“ segir Óskar. Þá sé ekki hægt að greina nóróveiru í matvælum hérlendis, einungis fólki.

Upphaf umræðunnar um tilfelli matareitrunar á veitingastaðnum má rekja til umræðu á Facebook-hópnum Matartips. Var þar spurt hvort að einhverjir hefðu snætt á Hamborgarafabrikkunni liðna helgi og veikst í kjölfarið. Fjöldi fólks taldi sig deila þessari upplifun og svaraði María Rún Hafliðadóttir, framkvæmdastjóri Fabrikkunnar spurningunni á þann veg að ábendingunum væri tekið alvarlega og málið væri komið í ferli.

Tæma út og sótthreinsa 

Í samtali við mbl.is segir María nú allsherjar sótthreinsun og þrif standa yfir á veitingastaðnum í Kringlunni.

„Í gær, þegar umræðan fór af stað inni á Matartips, þá fyrst áttuðum við okkur á því að það væri einhver stærri hópur sem hefði lent í sömu upplifun og þá fóru bara ferlar af stað hjá okkur. Við ákváðum það hér í morgun að loka Kringlunni. Hér er verið að sótthreinsa, henda út, stokka upp á nýtt af því við vitum ekki alveg hvar þetta liggur,“ segir María en búið sé að senda sósur í greiningu. Samnefnari sé hjá sumum en ekki öllum en hún hafi sjálf sett sig í samband við alla þá sem hafi greint frá reynslu sinni á Matartips.

„Á meðan erum við bara búin að henda öllu út hér. Svo er náttúrlega rosa erfitt ef þetta er eitthvað annað, ef þetta er eitthvað sem berst manna á milli, maður veit ekki, það er bara rosalega erfitt að segja,“ segir María.

Eru með varann á sér ef þetta skyldi berast manna á milli 

Tíma geti tekið að fá út úr rannsóknum og þess vegna hafi þau ákveðið að loka og henda þeim vörum sem voru í notkun.

„Svo erum við líka að sótthreinsa allt ef þetta skyldi vera eitthvað sem berst manna á milli,“ segir María.

Spurð hvort aðrir staðir hafi verið skoðaðir með tilliti til málsins segir hún svo ekki vera.

„Það var ein fjölskylda á Matartips sem sagðist hafa farið á Fabrikkuna fyrir rúmri viku síðan, tíu dögum, en þau voru á hinum staðnum og þau veiktust öll. Þá er þetta meira eins og ælupest sem að gengur manna á milli,“ segir María.

Verið er að rannsaka matvælin sem gestirnir, sem nú eru orðnir veikir, borðuðu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert