„Með því grófara sem ég hef séð“

Ökumaður Samskipa reyndi að aka fram úr fimm bifreiðum í …
Ökumaður Samskipa reyndi að aka fram úr fimm bifreiðum í einu á vegarkafla milli Borgarness og Munaðarness þar sem ein akrein liggur í hvora átt. Settur yfirlögregluþjónn í Borgarnesi segir aksturinn með því grófasta sem hann hefur séð og rannsakar embætti hans nú málið. Skjáskot/Myndskeið Örnu Sjafnar Sævarsdóttur

„Við erum með þetta mál til rannsóknar, sú rannsókn gengur út á það að við höfum samband við eigendur tækisins og krefjum þá um svör um það hver var að keyra. Svo boðum við ökumann í skýrslutöku og kærum hann væntanlega í kjölfarið.“

Þetta segir Ásmundur Kr. Ásmundsson, settur yfirlögregluþjónn á Vesturlandi, í samtali við mbl.is um framúrakstur ökumanns vörubifreiðar Samskipa, með tengivagn, sem Arna Sjöfn Ævarsdóttir gerði myndskeið af á síma sinn í gær og vakið hefur gríðarlega athygli, meðal annars verið deilt ótal sinnum á samfélagsmiðlum.

„Þetta er með því grófara sem ég hef séð lengi og ég get alveg staðið við þau orð mín,“ segir Ásmundur yfirlögregluþjónn ómyrkur í máli, „þarna má auðvitað aka fram úr en þetta er vítaverður framúrakstur og ef saksóknari metur það svo að verið sé að stofna vegfarendum í lífshættu er það enn meira mál, ég get ekki svarað fyrir hvað saksóknari gerir en við erum bara að finna út úr því núna hver ók þessum bíl,“ heldur Ásmundur áfram.

Annað mál til rannsóknar hjá sama ökumanni

„Þarna fer stór flutningabíll fram úr bílum og þvingar bíla á móti og við hlið sér út af vegi, það gerist varla mikið verra en þetta. Við erum með þetta og við erum með fleira á þennan bíl, við fengum tilkynningar um að hann hefði valdið skemmdum á bíl sem hann mætti á viðgerðarkafla þar sem hann sló ekkert af, það er til rannsóknar líka. Við fengum tilkynningar frá vegfaranda sem hann jós grjóti yfir og tjónaði bílinn hans verulega, ég er búinn að sjá myndir af því, en það er náttúrulega meira tryggingamál en lögreglumál,“ segir yfirlögregluþjónninn frá og heldur áfram.

Lögreglan í Borgarnesi, og á gervöllu Vesturlandi, hefur í nógu …
Lögreglan í Borgarnesi, og á gervöllu Vesturlandi, hefur í nógu að snúast þegar kemur að umferðareftirliti að sögn Ásmundar yfirlögregluþjóns. mbl.is/Júlíus

„Við erum með tvö mál í gangi á þennan bíl sem sagt en við getum auðvitað ekki sannað á hvaða hraða maðurinn var. En ef hraði er tekinn niður á þjóðvegi úr 90 niður í 50 er það vegna þess að þarna er olíumöl eða laus möl, það er gert svo það verði ekki slys og þú sért ekki að valda öðrum tjóni með því að úða grjóti yfir þann sem þú ert að mæta. Ég sá þetta svo sem á netinu í gærkvöldi en fékk þetta formlega sent til embættisins í morgun frá þessum vegfarendum og þá fer þetta í rannsóknardeild hjá okkur og viðkomandi verður boðaður í skýrslutöku,“ segir Ásmundur.

„Þá eigum við engan séns“

Eru vegfarendur duglegir að senda ykkur tilkynningar og myndskeið af vítaverðum akstri?

„Það er alveg endalaust, já já, við fáum tilkynningar um vítaverðan akstur. Stundum er fólk undir áhrifum áfengis eða fíkniefna, við ætlum nú ekki að atvinnubílstjóri hafi verið það þarna á þessum bíl en við fáum mikið af tilkynningum, til dæmis úr Hvalfjarðargöngunum, þar varð nú þriggja bíla árekstur bara í gær,“ heldur yfirlögregluþjónninn áfram og segir ávallt reynt að hafa uppi á viðkomandi ökumönnum.

„En ef einhver bíll er uppi á heiði og við erum í Borgarnesi þá eigum við engan séns, en þá látum við vita, önnur lögreglulið í landshlutanum taka þá við og auðvitað tekst ekkert alltaf að finna viðkomandi en það tekst mjög oft og út úr því kemur oft eitthvað, fólk ekki með réttindi eða fólk að aka undir áhrifum, það er alls kyns. Við stöðvum að jafnaði þrjá ökumenn á viku sem grunaðir eru um að aka undir áhrifum fíkniefna, það er algengara en að fólk sé undir áhrifum áfengis,“ heldur Ásmundur áfram.

Hvenær breyttist það hlutfall?

„Það eru alveg nokkur ár síðan,“ svarar hann, „þegar ég var götulögga í Reykjavík í gamla daga var þetta ölvun við akstur aðallega og miklu minna um akstur undir áhrifum fíkniefna en í dag hefur það snúist við, nema kannski á Írskum dögum hjá okkur og þessum bæjarhátíðum, þá erum við að taka fleira fólk sem er að aka ölvað, þá breytist þetta,“ segir Ásmundur og greinilegt að yfirlögregluþjónninn talar af reynslu, mikilli reynslu, „menn eru kannski að fara of snemma af stað, það er ekki runnið af þeim, það er algengt.“

Ásmundur kveður fjölda tilkynninga berast frá ökumönnum um óboðlega aksturshætti, …
Ásmundur kveður fjölda tilkynninga berast frá ökumönnum um óboðlega aksturshætti, ekki síst úr Hvalfjarðargöngum þar sem þó æva skyldi. Morgunblaðið/Sverrir

Fjögur til fimm þúsund myndaðir

Blaðamaður spyr Ásmund út í umferðarmál í hans umdæmi almennt, hverjar skyldu vera helstu áskoranir laganna varða á Vesturlandinu?

Umdæmið er víðfeðmt, það tekur Ásmundur fram í byrjun, „það nær allt frá Hvalfjarðarbotni að Vestfjörðum og upp á heiði auk þess sem við eigum hálfan Langjökul“, segir hann og kveður umdæmið eiga sér fimm lögreglustöðvar. „Að megninu til erum við að sinna umferðarmálum en auðvitað fáum við líka önnur lögreglumál, ofbeldismál og alls kyns brot, en ef ég segi þér bara af umferðarbrotum voru lögreglumennirnir mínir með tvö hundruð mál á einni viku ekki alls fyrir löngu,“ segir Ásmundur og bendir á að lögreglan sinni einnig eftirliti gegnum hraðamyndavélar.

„Á milli fjögur og fimm þúsund ökumenn kjósa að láta mynda sig við að keyra of hratt í hverjum mánuði,“ segir yfirlögregluþjónninn og blaðamanni verður hugsað til sinna sex hraðasekta á Íslandi árabilið 1996 til 2009. Kannski er heildarfjöldinn ekki svo ótrúlegur.

Borgarnes heyrir undir Vesturlandsumdæmi lögreglunnar. Vörubifreiðarstjóri Samskipa er nú til …
Borgarnes heyrir undir Vesturlandsumdæmi lögreglunnar. Vörubifreiðarstjóri Samskipa er nú til rannsóknar þar vegna vítaverðs framúraksturs í gær. Ásmundur yfirlögregluþjónn ræddi það mál og umferðarmál almennt við mbl.is. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Og ef menn eru líka að tala í síma þegar myndin er tekin bætist við 40.000 króna sekt við að halda á síma. Þetta er mikill fjöldi og myndavélarnar eru víða. Þessar sektir eru allar afgreiddar í Stykkishólmi, við erum með deild þar sem sér um þetta en ég get sagt þér það að þær hafa ekki undan, þetta er svo mikið,“ segir hann.

Þannig að þið eruð að hala inn alveg skrilljón í sektir á mánuði?

„Ja, ríkissjóður gerir það, ef við fengjum nú peninginn værum við hamingjusamir en við fáum ekki eina krónu af þessu,“ svarar Ásmundur og hlær, „þetta er bara skattur sem fólk kýs að greiða með því að keyra of hratt. Margt af því eru erlendir ferðamenn og oft erfitt að hafa uppi á þeim, fólk er farið úr landi kannski og ekki með lögheimili á landinu,“ heldur hann áfram.

Enginn að keppa

Oft greiði fólk sektir á staðnum þegar það er stoppað en hraðamyndavélarnar, sem Vegagerðin rekur, bjóða eðlilega upp á annan raunveruleika. „Myndirnar eru sendar inn til míns fólks í Stykkishólmi og svo er fundið út hver er skráður eigandi bílsins og honum send sekt í heimabanka. Ef um bílaleigu er að ræða þarf hún að gera grein fyrir því hver var á bílnum en ef það er bara þinn bíll, segjum það, þá fengir þú póst og þú þyrftir að gera grein fyrir því ef til dæmis bróðir þinn hefði verið á bílnum. Skráður eigandi þarf að borga sektina eða svara því hver var að keyra bílinn. Ef maður er skráður eigandi ökutækis verður maður að borga sektina ef maður gerir ekki grein fyrir einhverju öðru,“ útskýrir Ásmundur af vettvangi starfs síns.

Hraðamyndavélar nappa mörg þúsund ökumenn fyrir hraðakstur mánuð hvern, sumir …
Hraðamyndavélar nappa mörg þúsund ökumenn fyrir hraðakstur mánuð hvern, sumir eru líka að tala í símann sem kostar 40.000 krónur að auki. mbl.is/Jakob Fannar Sigurðsson

Blaðamaður spyr hvort lögreglan á Blönduósi eigi ekki enn skuldlaust met í hraðasektum og hugsar til alræmdra sagna af því embætti frá tíunda áratugi síðustu aldar.

Ásmundur segir Borgarnes þá að minnsta kosti ekki vera þar langt undan og getur blaðamaður raunar vel trúað enda ein frægasta hraðasektin sem þar var gerð upp sú þegar ambáttin Brák, fóstra Egils Skallagrímssonar, lagðist til sunds forðum og Skallagrímur Kveldúlfsson grýtti bjarginu milli herðablaða hennar „ok kom hvártki upp síðan“.

„En það er enginn að keppa. Hins vegar erum við að fá mjög alvarleg umferðarslys hér á hverju ári,“ segir Ásmundur alvarlegur í bragði, „og það er það sem við erum að reyna að stemma stigu við. Því verður ekki breytt nema þú fáir fjöldann til að endurskoða hugsun sína um akstur. Þú nærð einum á 150 og hann fær háa sekt og missir prófið en ef þú færð fjöldann til að keyra hægar og vera á eðlilegum hraða munum við sjá færri alvarlegri slys.

Taka grænu skrefin

Og það er kannski eitt það besta við þessa rafmagnsbíla sem nú eru að koma, þeir segja fólki að með því að keyra hægar komist það lengra vegna þess að bíllinn notar minna rafmagn og við erum í þessum sama pakka, við erum með vottaða umhverfisstefnu frá umhverfisráðuneytinu enda erum við að skipta yfir í rafmagnsbíla hjá okkur, við erum að taka þessi grænu skref,“ segir Ásmundur Kr. Ásmundsson að lokum, settur yfirlögregluþjónn á Vesturlandi, en alla jafna aðstoðaryfirlögregluþjónn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert