Miklu meiri gróðureldar í kringum gosið

Eldgosið hófst á mánudag.
Eldgosið hófst á mánudag. mbl.is/Árni Sæberg

Vart hefur orðið við talsverðan reyk við eldgosið við Litla-Hrút vegna gróðurs sem brennur. Almannavarnir biðla til almennings um að fara varlega í kringum gossvæðið þar sem reykurinn getur haft slæm áhrif á heilsufar fólks.

„Það eru engin stórslys á fólki enn sem komið er, en við höfum mestar áhyggjur af eldinum í gróðrinum,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri Almannavarna, í samtali við mbl.is.

„Það sem er óvenjulegt við þetta eldgos miðað við hin tvö er að það er miklu meiri gróður í kringum þessa eldstöð, sem gerir það að verkum að það eru miklu meiri eldar í kringum eldstöðina,“ segir Hjördís.

Náttúruvár í fleirtölu

Segir hún að helsta viðfangsefni Almannavarna í dag sé að upplýsa fólk um að koma sér í burt frá gróðureldunum og frá efnunum sem eru í reyknum. Reykurinn frá gróðureldinum geti verið afar hættulegur.

„Þessi reykur sem við erum að sjá á þessum myndum er með hættulegum ögnum í sér sem geta haft slæm áhrif á öndunarveg, augu og lungu,“ segir Hjördís.

„Við erum eiginlega komin með tvær vár, ef það er hægt að setja vá í fleirtölu,“ bætir hún við og á þar við gosið og gróðureldana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert