Myndskeið: „Fyrstur að ganga yfir logandi mosann“

„Þetta var alveg magnað. Það var mjög erfitt að hjóla þangað. Upp í mót alla leiðina en það var algjör snilld á leiðinni til baka.“

Þetta segir Muhammed Emin Kizilkaya, einn stjórnenda vefsíðunnar Severe Weather Europe, sem hjólaði að gosstöðvunum fyrr í dag. Muhammed er fædd­ur og upp­al­inn í Dan­mörku en er nú búsettur á Íslandi og stundar nám við Háskóla Íslands. 

Hann fór að gosstöðvunum í þeim tilgangi að taka upp myndskeið af eldgosinu við Litla-Hrút sem hann mun síðan að selja miðlum í Bretlandi en hann var jafnframt í beinni útsendingu frá gosstöðvunum fyrir ýmsa danska miðla. Hann segir eftirspurnina mikla fyrir myndefni frá gosstöðvunum.

Myndskeið af ferð Muhammed má berja augum í spilaranum hér að ofan

Yfirvöld búin að standa sig vel

Hann segir að það hafi verið nokkuð fámennt á gosstöðvunum þegar hann kom þar í morgun. Hann tekur fram að fólk hafi hræðst það að stíga yfir brennandi mosann áður en hann lét til skara skríða.

„Ég þurfti að ganga yfir brennandi mosa til að sjá eldgosið betur. Ég tók eftir því fólk hafði varan betur á núna heldur en fyrr. Yfirvöld eru búin að standa sig mjög vel við að vara fólk við. Ég held að erlendu ferðamennirnir hafi haldið að sinubruninn í mosanum væri kvika en það er hægt að ganga yfir það.

Mjög margir voru á bak við reykinn en ég var fyrstur að ganga yfir logandi mosann. Þannig rauf ég flóðgáttirnar að eldgosinu en ég veit ekki hvort það hafi verið skynsamlegt af mér. Mosinn brennur út um allt.“

Spurður hvort að það sé ekki skelfilegt að ganga yfir logandi mosa svarar Muhammed því neitandi. Hann tekur þó fram að hann hafi orðið var við fólk á svæðinu sem gekk yfir storknað hraun. Var honum þá ekki sama og lét fólk vita hve hættulegt það væri.

Hefur varan á eftir fæðingu frumburðarins

Muhammed segir að hann hafi hjólað átta kílómetra að eldgosinu en neyðst til að ganga síðasta kílómetrann og bætir við að ferðin að gosinu hafi tekið um klukkutíma fyrir hann á hjólinu en aðeins hálftíma á leiðinni til baka. 

Muhammed segir sig vera ákveðinn adrenalínfíkil og tekur fram að hann sækist jafnvel of mikið í adrenalín. Hann bætir þó við að hann hafi varan meira á nú en áður þar sem hann var að eignast sitt fyrsta barn með eiginkonu sinni.

Ekki hægt að bera saman við fyrri gos

Hann segir eldgosið við Litla-Hrút ekki vera í hálfkvist miðað við fyrri tvö eldgosinu á Reykjanesskaganum. 

„Ég var með þeim fyrstu að fyrsta eldgosinu. Myndskeið sem ég tók þá varð mjög vinsælt. Það er ekki hægt að bera þetta saman við hin eldgosin. Þetta eldgos er mjög einangrað, mikið af reyk og mikið af logandi mosa. Maður gat komist mikið nær eldgosinu í Meradölum. Fyrsta var það fallegasta. Ég get sagt það án nokkurs vafa.“

Ekki erfiðara aðgengi en áður

Spurður hvort að það sé erfiðara að komast að þessu eldgosi miðað við síðustu tvö svarar Muhammed því neitandi. 

„Mér fannst erfiðara að komast að eldgosinu við Meradali. Landslagið við Meradali var hræðilegt, mikið af grjóti og illförnum jarðveg. Að minnsta kosti með þetta eldgos gat ég hjólað að því.“

Spurður hvort að hann vonist eftir fleiri eldgosum á komandi árum svara hann því játandi. Hann setur þó þann varnagla á að hann vonist eftir því svo lengi sem það er öruggt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert