Óábyrg og óþörf ummæli

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, og Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur.
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, og Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur. Samsett mynd

„Mér finnst óábyrgt og óþarft að nefna ákveðin bæjarfélög eða svæði undir þessum kringumstæðum. Þegar allt höfuðborgarsvæðið og Reykjanesið getur allt eins verið undir.“

Þetta segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, um ráðleggingu Þorvalds Þórðarsonar eldfjallafræðings í samtali við mbl.is fyrr í dag.

Þar kvaðst Þorvaldur ekki telja það skynsamlegt að byggja lengra í suðurátt frá Völlunum í Hafnarfirði vegna eldgosa á Reykjanesskaganum. Ef miðað er við það mynstur sem virðist vera að skap­ast er gos­virkn­in að fær­ast í norðaust­ur frá Fagra­dals­fjalli og þar með nær höfuðborg­ar­svæðinu.

Þorvaldur tók þó fram að gosvirknin þyrfti að færa sig um sprungurein svo að eldgos við Vellina, syðsta hverfi Hafnarfjaðar, yrði að veruleika.

Næstu framkvæmdir í austurátt frekar en suður

Spurð hvort þessi ummæli eigi frekar við Hafnarfjörð en önnur bæjarfélög svarar Rósa því neitandi.

„Sérfræðingurinn bætir því við að það sé ólíklegt að það sé gosvirkni þarna sem muni hafa áhrif á þessi svæði, svo ég skil þetta ekki alveg. Ég held að við ættum að varast gáleysislegar yfirlýsingar af þessu tagi.“

Hún segir aðspurð að næstu framkvæmdir verði í austurátt frá Völlunum en ekki í suður.

„Samkvæmt skipulagi næstu ára verður uppbygging íbúðarhúsnæðis í austurátt. Það er samkvæmt svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins sem nær til 2040.“

Hafnfirðingar halda ró sinni

Hún segir eldgosið ekki vera óþægilegra fyrir Hafnarfjörð en önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesskaga. 

„Við höldum ró okkar, Hafnfirðingar, og fylgjumst með eins og aðrir. Við erum með sérfræðinga á öllum sviðum sem við treystum til að meta aðstæður.“

Spurð hvort athugasemdir hafi borist frá jarðfræðingum, þegar hafist var handa við að skipuleggja byggð á Völlunum, kveðst Rósa ekki vita til þess.

„Þetta er fyrir 25 árum en ég kannast ekki við það. Ég hef ekki heyrt af því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert