Skátar leita að fjársjóði um helgina

Skátamót árið 2022. Mynd úr safni.
Skátamót árið 2022. Mynd úr safni. Ljósmynd/Olga

Í dag hefst skátamót á Úlfljótsvatni og er áætlað að um 200 skátar sæki mótið sem stendur fram á sunnudag. 

Í tilkynningu frá Bandalagi íslenskra skáta kemur fram að ekki sé um hefðbundið landsmót að ræða, heldur ágætis æfingu fyrir yngri skáta fyrir landsmót sem verði haldið á næsta ári. 

Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra verður viðstaddur mótsetninguna klukkan 21 í kvöld. 

Meðal þess sem verður á dagskrá mótsins verður leit að földum fjársjóð í kringum Hengilinn, á Þingvöllum og við sjóstrendur Suðurlands á milli Eyrarbakka og Knarrósvita. 

Mótstjórnin er eingöngu skipuð ungu fólki á aldrinum 20-26 ára, en einnig er gert ráð fyrir að fjölskyldur muni flykkjast í sérstakar fjölskyldubúðir á svæðinu um helgina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert