„Þetta var bara hálfgerð bilun“

Steinar Þór Kristinsson stýrir aðgerðum við gosstöðvarnar fyrir björgunarsveitina Þorbjörn.
Steinar Þór Kristinsson stýrir aðgerðum við gosstöðvarnar fyrir björgunarsveitina Þorbjörn. Samsett mynd

„Við erum náttúrulega ekkert annað en skrúfjárn í verkfærakistu hins opinbera,“ segir Steinar Þór Kristinsson, sem stýrir aðgerðum við gosstöðvarnar fyrir björgunarsveitina Þorbjörn.

Náðst hefur að manna vaktir á gosstöðvunum en þó með herkjum. 

Sérsveit var kölluð til í fyrradag þar sem vegfarendur virtu ekki fyrirmæli björgunarsveitarmanna á gosstöðvunum. 

„Eins og þetta var í gærkvöldi – þetta var bara hálfgerð bilun. Og hvernig fólk hagar sér, sumt fólk hlustar ekki og er með skæting. Og að hafa þurft að kalla sérsveitina til fyrsta kvöldið. Hvert erum við komin?“ spyr Steinar.

Björgunarsveitarmenn ræða við ferðamenn við eldgosið.
Björgunarsveitarmenn ræða við ferðamenn við eldgosið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Búist við því að björgunarmenn séu til taks

„Við náttúrlega höfum ekkert vald og sækjumst ekki eftir valdinu. En það að fólk geti ekki tekið til sín vinsamleg tilmæli og hlustað.“

Steinar segir að um ærið verkefni sé að ræða, einkum og sér í lagi vegna manneklu hjá björgunarsveitunum.

„Þetta lítur vel út, það er sól og spennandi að fara. En við biðlum til fólks að hlusta á tilmæli, þetta er ekki hugarfóstur okkar.“

Spurður hvort lögreglan þurfi að vera sýnilegri á svæðinu segir hann:

„Þeir eru náttúrlega þreyttir á þessu, fastir með sínar vaktir. Þeir eru ekkert öfundsverðir heldur. Ég er alls ekki að hallmæla þessum stofnunum en opinbera kerfið þarf að vera miklu skilvirkara. En sjálfboðaliðar þurfa alltaf að vera fremstir í flokki og bjarga öllu og græja allt,“ segir Steinar.

„Þetta næst með herkjum“

Færri björgunarmenn standa vaktina við gosstöðvarnar nú en áður. Steinar er þó bjartsýnn á að allt muni reddast að lokum. 

„Við erum flestir í okkar átta til fjögur vinnu og getum komið á kvöldin en aðrir eru bara að ferðast. Við náttúrlega þurfum að sinna okkar vinnu og vinnuveitendur hafa ekki endalausa þolinmæði fyrir þessu,“ segir hann. Þrír til fjórir hópar frá björgunarsveitinni hafi verið á gosstöðvunum í gær.

„Þetta næst með herkjum, að smala saman. En það er ekki hægt að ganga endalaust á þá fáu einstaklinga sem eru í boði.“

Nú hefur verið auglýst eftir landvörðum á svæðinu. Hefðu þeir átt að koma fyrr?

„Klárlega, þeir hefðu átt að koma á degi eitt og það hefði þurft að vera meira viðbragð. Í fyrra vorum við komin með sjúkraflutninga- og lögreglumenn á vakt.“

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert