Barnalegur frekjuskapur: Fúkyrði frá Íslendingum

Tómas Logi Hallgrímsson, björgunarsveitarmaður Sigurvonar í Sandgerði, til vinstri.
Tómas Logi Hallgrímsson, björgunarsveitarmaður Sigurvonar í Sandgerði, til vinstri. Ljósmynd/Aðsend

Svo að samfélagið í heild taki við sér þarf bara stórslys. Hvort það heiti stjórnvöld eða almenningur, þá virðist að einhver þurfi að deyja svo að fólk átti sig á hættunni.

Þetta segir Tómas Logi Hallgrímsson, björgunarsveitarmaður Sigurvonar í Sandgerði, í samtali við mbl.is, en hann segir of marga sem leggja leið sína að gosstöðvunum koma fram með miklum dónaskap við björgunarsveitafólk á svæðinu. Hann segir það gerast alltof oft að fólk láti fúkyrði rigna yfir björgunarsveitafólk sem er þar að sinna sjálfboðaliðastarfi.

Spurður hvort það séu íslenskir eða erlendir ferðamenn sem séu helst til vandræða segir hann íslenska ferðamenn vera líklegri til að vera með derring og leiðindi. Hann tekur fram að erlendir ferðamenn séu kurteisari og fari betur eftir fyrirmælum.

„Þeir hrista kannski hausinn og láta það nægja. Sleppa því að láta okkur heyra það,“ segir hann um erlenda ferðamenn. 

Mikið um „sérfræðinga“

„Að fólk skuli nenna að hafa fyrir því að rífast við okkur eins og við séum að taka einhverjar ákvarðanir. Við erum bara vondir menn því við leyfum ekki Jóa frænda að láta sækja sig. Þetta er bara barnalegur frekjuskapur, við skulum bara orða það þannig,“ segir hann og minnir á að björgunarsveitafólk fari eftir leiðbeiningum yfirvalda.

„Það er rosa mikið af „sérfræðingum“ sem koma til okkar og við erum bara vitleysingar og þau vita alveg hvernig eldgos virka. Við vitum náttúrulega ekki neitt. Við erum bara að fylgja fyrirmælum frá fólki sem veit hvernig þetta virkar og er búið að fara í háskólanám til þess.“

Sakaður um mannréttindabrot

Spurður hvers konar fúkyrði ferðamenn beita gegn þeim, segir Tómas að þau séu margs konar.

„Við erum ekki starfi okkar vaxnir og heimskir og við erum bara undirgefnir og vitleysingar að vera hlýða svona fáránlegum skipunum. Fólk segir að við ættum að setja höfuðið okkar í gang áður en við mætum í vinnuna. Fólk heldur að við séum í vinnunni. Ég hef verið sakaður um að fremja mannréttindabrot.“

Tómas ásamt fleiri björgunarsveitarmönnum við eldgosið við Litla-Hrút.
Tómas ásamt fleiri björgunarsveitarmönnum við eldgosið við Litla-Hrút. Ljósmynd/Aðsend

Hann minnist þess að einn ósáttur Íslendingur hafi tilkynnt honum og öðrum björgunarsveitamönnum að hann ætlaði að hætta að styrkja björgunarsveitina vegna fyrirmæla á gosstöðvunum.

„Mesta hrósið sem ég fékk var að vera kallaður krakkaskítur. Ég hef ekki verið kallaður krakki í mörg ár. Maður bara yngist upp við þetta,“ segir hann kíminn.

Sumir taka fúkyrðin inn á sig 

Hann ítrekar þó að langstærsti meirihluti þeirra sem sækja gosstöðvarnar sé þakklátur fyrir störf björgunarsveita og fari eftir fyrirmælum án mótmæla. 

Spurður hvort að það sé erfiðara að sinna sjálfboðastarfi sem þessu þegar svona viðbrögð fólks blasa við, svarar Tómas því neitandi.

„Í rauninni ekki. Þetta er brotabrot af starfinu. Ef þú ert skynsamur þá ferðu bara að vorkenna þessu fólki í staðinn fyrir að taka þetta inn á þig.“

Hann tekur fram að hann reyni eftir bestu getu að hafa bara gaman af þessu mótlæti. Tómas ítrekar þó að allir séu kannski ekki jafn vel búnir og hann til að láta svona fúkyrði og orðbragð þjóta eins og vind um eyru sér.

„Þó að ég taki þetta kannski ekki inn á mig þá er fullt af fólki sem lendir í þessu og tekur það bara virkilega inn á sig. Þetta getur kannski lent á manneskju sem fer bara heim og kemur ekkert aftur og líður bara illa.“

Þurfi stórslys svo eitthvað breytist

Spurður hvað sé hægt að gera svo að fólk fari að haga sér betur við gosstöðvarnar, segist Tómas hræddur um að það vanti einhvers konar stórslys svo fólk fari að hugsa sig tvisvar um.

„Svo að samfélagið í heild taki við sér, þarf bara stórslys. Hvort það heiti stjórnvöld eða almenningur, þá virðist að einhver þurfi að deyja svo að fólk átti sig á hættunni. Varðandi framkomu við okkur þá ræddum við það í gær hvað það líði langt þangað til við förum að ganga með búkmyndavél og hljóðupptöku.“

Tómas grillar pylsur við eldgosið árið 2021 við Fagradalsfjall.
Tómas grillar pylsur við eldgosið árið 2021 við Fagradalsfjall. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert