Dregið verulega úr krafti eldgossins

Þyrla Landhelgisgæslunnar flýgur yfir rauðglóandi hraunbreiðu við Litla-Hrút.
Þyrla Landhelgisgæslunnar flýgur yfir rauðglóandi hraunbreiðu við Litla-Hrút. mbl.is/Árni Sæberg

Hraunið sem runnið hefur úr gossprungunni við Litla-Hrút, sem opnaðist á mánudag, hefur þykknað verulega. Meðalþykkt þess beint austur af fjallinu er nú orðin um tíu metrar, en var um sjö metrar við mælingu á þriðjudag.

Útbreiðsla þess hefur sömuleiðis aukist um 15%.

Frá þessu greinir rannsóknarstofa HÍ í eldfjallafræði og náttúruvá, en miðað er við nýjustu mælingar frá klukkan 18.30 í gær.

Hægst á útbreiðslu

Niðurstöðurnar eru sagðar sýna að hægst hafi á útbreiðslu hraunsins, sem í gær var um 420.000 fermetrar, en var 363.200 fermetrar við mælingu á þriðjudag.

Á móti hafi hraunið þykknað verulega, eins og áður sagði.

Þykkt hraunsins í dalkvosinni sunnan Litla-Hrúts hafði aukist frá um sjö metrum á þriðjudag í 16 metra kl. 18.30 í gær. Þar hafði jafnframt myndast lítill hraunpollur.

Kortið sýnir hraunútbreiðsluna við Litla-Hrút.
Kortið sýnir hraunútbreiðsluna við Litla-Hrút. Kort/HÍ

Dagsmeðaltalið 10 rúmmetrar á sekúndu

Þessar mælingar gefa vísindamönnum efni til að álykta að dagsmeðaltal hraunframleiðslunnar nemi 10 rúmmetrum á sekúndu.

Er sú framleiðni einn fjórði af því sem var fyrstu fimm klukkustundir gossins, og helmingur af því sem það var í gær, miðvikudag.

Gosið er þó sagt halda dampi það sem af er deginum í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert