„Fjölskyldumót“ í Helsinki með Biden

Leiðtogar Norðurlandanna og Biden Bandaríkjaforseti funduðu í Helsinki í dag. …
Leiðtogar Norðurlandanna og Biden Bandaríkjaforseti funduðu í Helsinki í dag. Frá vinstri: Joe Biden Bandaríkjaforseti, Sauli Niinistö Finnlandsforseti, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs. AFP

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræddi um gervigreind og áhrif hennar á kynjajafnrétti á fundi hennar með Joe Biden Bandaríkjaforseta og leiðtogum Norðurlandanna í Helsinki í dag. mbl.is ræddi við Katrínu eftir fundinn.

Fundurinn var óformlegur og hafði gestgjafinn Sauli Niinistö, forseti Finnlands, orð á því að leiðtogarnir væru komnir saman á fjölskyldumót. Umræður voru frjálsar og fór fram áhugavert samtal um gervigreind, sem ryður sér hratt til rúms í heiminum um þessar mundir.

„Við ræddum gervigreind og nýja tækni, sem er eitthvað sem ég held að við erum öll að átta okkur á að er breyting sem mun hafa gríðarlega mikil áhrif á samfélagið okkar, hvort sem það er á sviði vinnumarkaðar, lýðræðis eða pólitíkur – raunar á hvern einasta geira samfélagsins,“ segir Katrín en unnið er að evrópsku regluverki hvað varðar þann málaflokk. 

Sauli Niinistö, forseti Finnlands (þriðji frá hægri), er gestgjafi fundarins. …
Sauli Niinistö, forseti Finnlands (þriðji frá hægri), er gestgjafi fundarins. Auk Sauli Niinistö, Katrínar Jakobsdóttur og Joe Biden tóku Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs (lengst til hægri), og Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar (fyrsti frá vinstri), þátt í fundinum. AFP
Leiðtogarnir fóru um víðan völl í húsakynnum forseta Finnlands í …
Leiðtogarnir fóru um víðan völl í húsakynnum forseta Finnlands í dag. AFP

„Ofarlega á baugi í Bandaríkjunum“

„Þessi mál eru mjög ofarlega á baugi í Bandaríkjunum. Þarna takast á ákveðin sjónarmið, annars vegar vilja allar þjóðir vera bestar í samkeppninni og hafa bestu tæknina, en um leið  blasir við þörfin á regluverki,“ segir Katrín og nefnir að það eigi ekki síst við í lýðræðisríkjum.

„Ef við horfum á þann stað sem við erum á núna þá eru svo margar leiðir fram á við og þær geta verið bæði til góðs og ills. Ég náði að sjálfsögðu að setja kynjajafnréttismálin í samhengi við þetta,“ segir Katrín en hún fjallaði um þau mál á fundi Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í mars á þessu ári.

„Ný staða að Norðurlöndin séu saman í slíku samstarfi“

Eins og gefur að skilja voru varnarmálin ofarlega á baugi, að nýafstöðnum leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins (NATO) í Vilníus. Fundurinn var sá fyrsti sem Finnar sátu verandi fullgilt aðildarríki NATO.

„Og allt stefnir í að Svíar geti orðið aðilar innan skamms. Það er ný staða að Norðurlöndin séu saman í slíku samstarfi og þar með í samstarfi með Bandaríkjunum,“ segir Katrín. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert