Auglýst hefur verið tillaga að deiliskipulagi lóða á horni Holtsgötu og Brekkustígs. Á lóðunum standa tvö gömul hús sem verða rifin og stærri hús byggð í staðinn. Annað húsanna er ónýtt af völdum veggjatítlu.
Nú eru á reitnum fimm íbúðir, alls 862 fermetrar, en verða eftir uppbyggingu 15 talsins, alls 1.790 fermetrar.
Þar sem lóðirnar eru í grónu hverfi í Vesturbænum má búast við því að ekki verði allir sáttir við þessa breytingar eins og þær athugasemdir gefa til kynna, sem borist hafa nú þegar.
Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 24. maí 2023 og borgarstjórnar Reykjavíkur 20. júní 2023 var samþykkt að auglýsa tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir svæðið.
Fólk getur kynnt sé tillöguna á skipulagsgatt.is og er athugasemdafrestur til 15. ágúst nk.
Fram kemur í greinargerð að með deiliskipulagstillögunni sé leitast við að mæta þeim markmiðum sem sett eru fram í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 þar sem lögð er áhersla á sjálfbæra þróun, fjölbreytt framboð íbúða á þéttingarsvæðum ásamt aukinni áherslu á vistvænar samgöngur.
Uppbygging verði á lóðunum Holtsgötu 10, 12 og Brekkustíg 16 og myndi lóðirnar þrjár eina skipulagsheild. Minjastofnun hafi fallist á niðurrif húsa á lóðunum Holtsgötu 10 og Brekkustíg 16 vegna lélegs ástands.
Þá gefist jafnframt kostur á að móta heildstæða byggð sem tekur tillit til mynsturs aðliggjandi byggðar og er til þess fallin að stuðla að fjölbreyttu mannlífi ásamt því að samnýta dvalarsvæði á lóðunum og bæta aðkomu að inngarði frá Holtsgötu.
Engin almenn bílastæði verða innan lóðanna þriggja.
Meira má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag, fimmtudag.