„Hann lítur á mig og byrjar að öskra“

Við vorum hópur þarna sem hafði verið í útilegu og beðið þarna á svæðinu í fimm daga og reyndum að reikna út hvar gosið hæfist,“ segir hinn sænsk-íslenski Jakob Vegerfors í samtali við mbl.is en Vegerfors er búsettur á Íslandi og starfar við viðskiptaþróun hjá hinu kunna flugmiðavefsetri Dohop.

Fjallar frásögn hans um hóp ljósmynda- og eldgosáhugafólks sem beið eftir að yfirborð jarðar rofnaði við Litla-Hrút og hleypti ólgandi kvikunni upp með tilheyrandi sjónarspili. Tilheyrði Vegerfors raunar sama hópi og Belginn geðþekki, Julian Leclercq, sem var með þeim fyrstu til að mynda gosið og sagði mbl.is af því og ódauðlegri ást sinni á Íslandi á þriðjudaginn.

„Ég mætti þarna fyrir helgi,“ segir Vegerfors sem hefur í sínum fórum dróna og náði eftirtektarverðu og sjaldgæfu myndskeiði af gossprungu opnast við Litla-Hrút. „Einhverjir komu og fóru meðan á biðinni stóð en alltaf var einhver hópur á staðnum að bíða eftir að drægi til tíðinda,“ segir Vegerfors frá.

„Gosið kveikti bara í mér“

„Þetta var mögnuð helgi, veðrið var gott og hægt að vera þarna í rólegheitum, njóta náttúrunnar og fylgjast með fréttum af skjálftum og öðrum merkjum um væntanlegt gos. Við gættum auðvitað öryggis og fylgdumst vel með hvar jarðvísindamenn töldu kvikuna mundu leysast úr læðingi,“ segir Svíinn sem á rætur sínar að rekja til byggðarlaganna milli Stokkhólms og Uppsala og á íslenskan föður.

Vegerfors er mikill áhugamaður um ljósmyndun og íslenska náttúru og …
Vegerfors er mikill áhugamaður um ljósmyndun og íslenska náttúru og ýtir öllu öðru til hliðar eigi hann þess kost að vera viðstaddur eldgos. „Það er ekki mikið um eldgos í Svíþjóð,“ segir hann. Ljósmynd/Jakob Vergerfors

„Þessi hópur er eiginlega bara ljósmyndarar og við erum bara vinir, ég hef búið hérna núna síðan í Covid, langaði að breyta til og kom til landsins, ég vinn fjarvinnu, en ég hef líka búið á Íslandi um tíma áður,“ segir hann af tengslum sínum við land og þjóð. „Svo kemur þetta eldgos og það kveikti bara í mér,“ segir Vegerfors og hlær.

Hópnum varð ekki um sel þegar 5,2 stiga jarðskjálftinn varð skömmu fyrir gos. „Það var pínu óþægilegt,“ játar hann hlæjandi, „en við vorum á stað sem við vissum að væri öruggur hvað jarðskjálfta snerti.“

Og björgin klofnuðu

Á mánudag, upphafsdegi gossins, hafði hann ákveðið að láta þessu jarðfræðilega fríi sínu lokið og hafa sig á brott. „En ég ákvað að taka einn dag enn í sólinni. Fór svo inn í tjald og ætlaði að leggja mig aðeins þegar gosið hófst. Þarna var einn strákur sem var að ganga í átt að bílastæðinu, hann ætlaði að fara heim bara. Ég kallaði þá í hann og hann lítur á mig og byrjar að öskra,“ segir Vegerfors af augnablikinu er jarðskorpan rofnaði og eldur og eimyrja stigu til himins á Reykjanesskaga.

Engu líkara er en hér megi horfa inn í forgarð …
Engu líkara er en hér megi horfa inn í forgarð Múspellsheims sem segir af í norrænni goðafræði. Ljósmynd/Jakob Vegerfors

„Það varð bara allt brjálað hjá okkur, allir sendu dróna á loft og byrjuðu að taka upp og það var einmitt Julian [Leclercq hinn belgíski] sem sá þetta fyrstur, hann var langfyrstur að gosinu en við vorum nokkur sem fórum í að taka myndir með drónum,“ segir Vegerfors frá en hann hefur marga fjöruna sopið á þeim vettvangi og náði eftirtektarverðu myndefni í Geldingadalagosinu í hitteðfyrra sem mbl.is fjallaði um.

„Þetta er stórt áhugamál hjá mér, ég er mikið úti í náttúrunni og um leið og eldgos hefst er ég kominn á svæðið, ég er alltaf að ljósmynda hvort sem er. Það er ekki mikið um eldgos í Svíþjóð,“ segir Jakob Vegerfors, viðskiptaþróunarstarfsmaðurinn hjá Dohop sem á sér tvöfalt líf og myndar íslensk eldgos af ástríðu og listfengi er færi gefst.

Upphaf eldgoss er augnablik sem dró til sín hóp ljósmyndara …
Upphaf eldgoss er augnablik sem dró til sín hóp ljósmyndara og náttúruunnenda, til dæmis hinn belgíska Julian Leclercq sem ræddi við mbl.is á þriðjudaginn. Ljósmynd/Jakob Vegerfors
„Gnýr allr Jötunheimr,/æsir ro á þingi,/stynja dvergar/fyr steindurum,/veggbergs vísir.“
„Gnýr allr Jötunheimr,/æsir ro á þingi,/stynja dvergar/fyr steindurum,/veggbergs vísir.“ Ljósmynd/Jakob Vegerfors
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert