Hissa á að enginn hafi þegar látist

„Maður hefur bara virkilegar áhyggjur af því að það eigi …
„Maður hefur bara virkilegar áhyggjur af því að það eigi eitthvað eftir að koma fyrir þarna,“ segir Kjartan sem var við gosstöðvarnar í gær áður en þær lokuðu. mbl.is/Hákon

„Maður er eiginlega bara hissa á að það sé enginn búinn að drepast nú þegar,“ segir Kjartan Þorbjörnsson ljósmyndari, einnig þekktur sem Golli, sem var við gosstöðvarnar í gærkvöldi og fram á nótt.

Eftir atburði næturinnar fann hann upp á nýju orðatiltæki sem hann deildi á samfélagsmiðlinum Twitter, „að drepast úr sjálfu“ – þ.e að fara sér að voða við sjálfsmyndatöku. 

Hafði hann þá orðið vitni að því þegar fjöldi manns gekk upp á nýstorknað hraunið við Litla-Hrút og margir hættu sér ískyggilega nálægt gígnum.

Umgengni mun verri nú

Kjartan tekur fram í samtali við mbl.is að orðatiltækið sem hann deildi á Twitter sé auðvitað grín. Öllu gríni fylgi þó alvara. „Maður hefur bara virkilegar áhyggjur af því að það eigi eitthvað eftir að koma fyrir þarna.“

Hann segir umgengni í kringum eldgosið mun verri nú en í fyrri gosum á svæðinu árið 2021 og 2022. Fleira fólk hagi sér glannalega.

„Í fyrri gosunum tveimur þá fannst manni kannski skrýtið að sjá eina og eina manneskju stíga upp á nýstorknað hraunið og upp í einhverja kanta. Núna horfði maður upp á um það bil tuttugu manns í einu á sama svæðinu, nokkra tugi metra frá gígbarminum.“

Kjartan Þorbjörnsson var við gosstöðvarnar í gærkvöldi.
Kjartan Þorbjörnsson var við gosstöðvarnar í gærkvöldi. mbl.is/Árni Sæberg

Geta hrunið fyrirvaralaust

Þetta getur verið stórhættulegt. „Í fyrri gosum hefur maður oftar en einu sinni horft upp á gígbarmana hrynja fyrirvaralaust og flæða niður á hraunið. Svona lagað gerist á svipstundu,“ segir Kjartan. 

Um sé að ræða vissa hjarðhegðun. „Það stígur einhver einn upp á hraunið og þá halda aðrir í kring að það sé bara eðlilegt og svo fer fólk smám saman að færa sig nær og nær gígopinu.“

Óheppileg staðsetning

Kjartan telur að glæfraleg hegðun við gosstöðvarnar kunni að stafa af því hvernig gígurinn er staðsettur.

Frá gönguleiðinni sér maður nefnilega framan á gígin en ekki ofan á hann. Þetta stangast mögulega á við þær væntingar sem fólk hefur þegar það kemur að gosinu.

 „Fyrri gosin voru þannig staðsett að hægt var að dást að þeim ofan úr brekkum og auðveldara að sjá ofan í gíginn. Það er eiginlega ekki hægt núna nema kannski ef maður fer alla leið upp á Litla-Hrút.“

Hann bætir við. „Það er eins og fólk hafi kannski séð myndir frá þeim gosum og haldi að það eigi að geta séð ofan í gíginn án vandræða þannig að það fer að príla þarna upp.“ 

Mannmergð var við eldgosið í gær og hættu margir sér …
Mannmergð var við eldgosið í gær og hættu margir sér nálægt gígnum. Einnig voru dæmi um að fólk tæki hraunmola úr nýju hrauninu og hefði með sér heim. mbl.is/Hákon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka