Íbúar mótmæla hækkun bílastæðagjalda

Íbúar fengu enga kynningu á fyrirhuguðum breytingum.
Íbúar fengu enga kynningu á fyrirhuguðum breytingum. mbl.is/Sigurður Bogi

Íbúasamtök miðborgar Reykjavíkur mótmæla þeim ólýðræðislegu vinnubrögðum sem yfirvöld í Reykjavík viðhöfðu þegar ákvörðun um um breytingar á tilhögun bílastæðagjalda í miðborginni var tekin. Þetta kemur fram í bréfi sem íbúasamtökin sendu til íbúaráðs miðborgar og Hlíða. 

Samtökin skora á borgarstjórn Reykjavíkur að draga til baka breytingarnar auk þess sem þau biðla til borgaryfirvalda að gera ekki breytingar á fyrirkomulagi bílastæðagjalda í miðborginni, í framtíðinni, nema að undan fari upplýst umræða og lýðræðislegt samráð við íbúa svæðisins. 

Íþyngjandi afleiðingar fyrir íbúa 

Í bréfinu segir að ef breytingarnar komast til framkvæmda þá sé ljóst að þær muni hafa íþyngjandi fjárhagslegar og félagslegar afleiðingar fyrir íbúa og fjölskyldur þeirra. Á það sérstaklega við um íbúa gjaldsvæðis 1 þar sem harkalegustu breytingarnar, eða hækkanir, eru boðaðar, og að ekki megi leggja bíl lengur en þrjár klukkustundir í senn. 

Þá segja samtökin nýja gjaldtöku á kvöldin og um helgar áhyggjuefni, enda muni það gera gestum íbúa erfitt fyrir varðandi heimsóknir. 

Gagnrýnin snýr þó ekki einungis að fyrirhuguðum breytingum heldur einnig að því að íbúar heyrðu fyrst af fyrirhuguðum breytingum í fjölmiðlum. Íbúar fengu þannig enga kynningu á breytingunum, eða tækifæri til þess að koma á framfæri athugasemdum eða breytingartillögum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka