Mikill erill hefur verið í Seyðisfirði síðustu daga. Í gær lágu þar þrjú skemmtiferðaskip við höfnina og hátt í sex þúsund manns voru á vappi um götur bæjarins. Ofan á það stendur listahátíðin LungA nú þar yfir og var því vægast sagt mikið líf í bænum í gær.
„Það er bara þvílíkt mannlíf í bænum,“ segir Dagný Erla Ómarsdóttir, fulltrúi sveitastjóra Múlaþings á Seyðisfirði, í samtali við mbl.is.
„Það var eitt skip sem var yfir nóttina og fór um hádegisleytið. Svo var eitt skip sem var með 3.780 farþegar og annað með 1.300 farþega.“
„Þetta er klárlega stærsti dagur sumarsins og það var mikið af fólki á götunum en þetta samt bara vel. Kannski var það vegna þess að við vorum öll undirbúin,“ segir Dagný. Segir hún það vera alla jafna gott fyrir bæinn að fá svona mikinn straum ferðamanna en er hins vegar sátt að það séu ekki allir dagar svona.
„Ég býst við því að það hafi verið nóg að gera [í verslunum]. Það var fullt af fólki labbandi um bæinn,“ segir hún. Mjög margir ferðamenn hafi einnig gengið að Gufufossi, en Dagný segir það þó vera fremur hættulegt með tilliti til þess að engin ákveðin gönguleið liggur að fossinum og ganga þarf á veginum til þess að komast að honum.
mbl.is náði einnig tali af Rúnar Gunnarssyni, hafnarverði við Seyðisfjarðarhöfn, sem segir að móttökur við höfnina hafi gengið vel. „Þetta virtist allt ganga upp. Það var náttúrulega farið í rútuferðir og gönguferðir og svona. Ég veit ekki betur en að þetta hafi allt gengið vel,“ segir Rúnar. Bætir hann við að í dag liggi eitt skemmtiferðaskip við höfnina
Listahátíð ungs fólks á Austurlandi, eða LungA, hófst á Seyðisfirði á sunnudag og stendur yfir í viku. Hátíðin er haldin ár hvert, þar sem listum og menningu er fagnað með námskeiðum, fyrirlestrum, tónleikum og fleiru.
Dagný segir hátíðina, ásamt miklum fjölda feðramanna, hafa blásið mikið líf í bæinn í gær.
„Sú hátíð gengur vel,“ segir hún. „Það var gaman í gær. Ég kíkti í kringum hádegi. Það var tónlist úti, það var barnasmiðja og fólk að fá sér fisk og franskar.“
„Það var allt bara lifandi og góð stemning,“ segir Dagný að lokum.