Rannsókn hópsýkingar í fullum gangi

Opnun staðarins í Kringlunni var ekki mótmælt af eftirlitinu.
Opnun staðarins í Kringlunni var ekki mótmælt af eftirlitinu. mbl.is/Styrmir Kári

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fór í eftirlit á Hamborgarafabrikkunni í Kringlunni í morgun. Eftir að hafa tekið út þrif, matvælaöryggi og fleira sá eftirlitið ekki þörf á því að gera athugasemdir við að staðurinn myndi opna nú í hádeginu. Rannsókn málsins er þó enn í fullum gangi.

Þetta staðfestir Jón Ragnar Gunnarsson, heilbrigðisfulltrúi hjá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur í skriflegu svari til mbl.is.

Þá segir hann nóróveirusýkingu ekki hafa verið staðfesta en í gær sagði deildarstjóri matvælaeftirlits hjá heilbrigðiseftirlitinu, í samtali við mbl.is, að vinnutilgáta hjá þeim væri að um nóróveirusýkingu væri að ræða.

Fram kom í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins að hátt í eitt hundrað tilkynningar hafi borist Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur vegna málsins.

Ekki hægt að greina nóróveiru nema með saursýni

Jón segir að ekki sé búið að hafa samband við alla sem gætu hafa smitast á staðnum en rannsókn málsins sé í fullum gangi. Ekki sé búið að staðfesta að sýkingin komi úr matvælum og því sé tilfellið flokkað sem hópsýking en ekki matareitrun.

Hvað varðar verklag sé um nóróveirusýkingu að ræða segir hann saursýnum vera safnað og þau prófuð en ekki er mögulegt að greina nóróveiru í matvælum hér á landi vegna skorts á búnaði og verklagi. Til þess að greina matareitrun séu sýni tekin úr matvöru.

Umræðan hófst á Matartips

Í leiðbeiningum við rannsóknir á hópsýkingum sem tengjast matvælum, neysluvatni eða dýrum kemur fram að megintilgangur rannsóknar sé að finna uppsprettu smita.

„Megintilgangur með rannsóknum á matarbornum sjúkdómum er að finna uppsprettu smita svo unnt sé að stöðva útbreiðslu, koma í veg fyrir fleiri tilfelli og koma í veg fyrir nýjar hópsýkingar. Við rannsóknir á matarbornum sjúkdómi eru notaðar örveru-, eiturefna-, faraldsfræðilegar og klínískar aðferðir til að setja fram tilgátu um orsakir sjúkdómsins og sannreyna hana,“ segir í leiðbeiningunum. Leiðbeiningarnar í heild sinni má nálgast á vef MAST.

Upp­haf umræðunn­ar um til­felli matareitr­un­ar á veit­ingastaðnum má rekja til umræðu á Facebook-hópn­um Matartips. Var þar spurt hvort að ein­hverj­ir hefðu snætt á Ham­borg­arafa­brikk­unni liðna helgi og veikst í kjöl­farið. Fjöldi fólks taldi sig deila þess­ari upp­lif­un og svaraði María Rún Hafliðadótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Fabrikkunnar spurn­ing­unni á þann veg að ábend­ing­un­um væri tekið al­var­lega og málið væri komið í ferli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert