„Mikil stefnubreyting“ eftir að Biden tók við

Katrín hlýðir á Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs á leiðtogafundi …
Katrín hlýðir á Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs á leiðtogafundi Norðurlandanna og Joe Biden Bandaríkjaforseta. AFP

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræddi loftlagsmál á fundi með Joe Biden Bandaríkjaforseta og leiðtogum Norðurlandanna. Hún nefnir að mikil stefnubreyting hafi orðið í málaflokknum eftir að Biden tók við. 

„Það varð mikil stefnubreyting með þessum forseta og Bandaríkin hafa verið að stíga fram með mikla fjárfestingu í þessum málum. Við ræddum möguleika í þeim efnum,“ segir Katrín en fundinum lauk í dag í húsakynnum Sauli Niinistö, forseta Finnlands í Helsinki.

Ræddi um kolefnisbindingu á Íslandi

„Við fórum hvert og eitt yfir það sem er að gerast í okkar löndum. Ég var auðvitað ekki einungis að tala um hvað við erum að gera í orkumálum heldur einnig kolefnisbindingu,“ segir hún en Landvernd hefur lagt ríka áherslu á að Ísland verði kolefnishlutlaust ríki.

Í yfirlýsingu fundarins ítreka leiðtogarnir eindreginn stuðning sinn við sjálfstæði og fullveldi Úkraínu. Áframhaldandi stuðningi við Úkraínu er heitið eins lengi og þörf krefur.

Spurð segir Katrín að öryggis- og varnarmálin hafi verið ofarlega á baugi á fundinum, enda sé ný staða að Norðurlöndin séu saman í slíku samstarfi með Bandaríkjunum. Þá var einnig rætt um Norðurskautið.

Samskipti við Rússa legið niðri 

„Þarna eru sex þjóðir sem eru aðilar í Norðurskautsráðinu. Þar hefur staðan verið sú að eftir innrásina hefur allt pólitískt samtal við Rússa legið niðri,“ áréttar Katrín.

„Það skiptir máli að við höldum áfram pólitíska samtalinu um það, því það hefur einskorðast algjörlega við samskipti fagfólks á sviði náttúru- og loftlagsmála.“

Leiðtogarnir fagna þá yfirlýsingu um skjóta aðild Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu enda muni aðild Finnlands og Svíþjóðar að bandalaginu auka öryggi allra aðildarríkja bandalagsins og samstarfsríkja.

Leiðtogafundur Norðurlandanna og Bandaríkjanna er sá þriðji sem haldinn hefur verið en fyrri fundir voru haldnir 2013 í Stokkhólmi og 2016 í Washington. Sauli Niinistö, forseti Finnlands, var gestgjafi fundarins. Auk Sauli Niinistö, Katrínar Jakobsdóttur og Joe Biden tóku þátt í fundinum þau Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, og Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert