Tæplega 42% ánægð með ákvörðun Svandísar

Þremur dögum eftir ákvörðun ráðherra hóf Gallup að kanna viðhorf …
Þremur dögum eftir ákvörðun ráðherra hóf Gallup að kanna viðhorf almennings til bannsins. Samsett mynd

Tæplega 42% eru ánægð með ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um að stöðva veiðar á langreyðum fram til 31. ágúst, samkvæmt niðurstöðum Þjóðarpúls Gallup. Rúmlega 39% eru óánægð með ákvörðunina.

Liðlega 19% eru hvorki ánægð né óánægð með ákvörðunina og þá tóku tæplega 8% ekki afstöðu til spurningarinnar. Heildarúrtak var 1.696 og þátttökuhlutfall 51,2%

Hvalveiðitímabil átti að hefjast 21. júní en daginn áður var greint frá ákvörðun matvælaráðherra um tímabundna stöðvun hvalveiða. Ákvörðunin var tekin í kjölfar álits fagráðs um velferð dýra þar sem fram kom að aðferð við veiðar á stórhvelum væri ekki í samræmi við markmið laga um velferð dýra.

Þremur dögum eftir ákvörðun ráðherra hóf Gallup að kanna viðhorf almennings til bannsins.

Yngra fólk ánægðara

Fram kemur að konur séu ánægðari en karlar með ákvörðun ráðherra og fólk sé ánægðara með hana eftir því sem það er yngra. Þá eru íbúar höfuðborgarsvæðisins ánægðari með ákvörðunina en íbúar á landsbyggðinni.

Þau sem kysu Vinstri græn, Sósíalistaflokkinn, Samfylkinguna eða Pírata ef kosið yrði til Alþingis í dag eru líklegust til að vera ánægð með ákvörðun ráðherra. Þau sem kysu Miðflokkinn eru líklegust til að vera óánægð með ákvörðunina, en þar á eftir koma þau sem kysu Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn.

Þá eru þau sem hafa lokið háskólamenntun ánægðari með ákvörðunina en þau sem hafa minni menntun að baki.

Niðurstöðurnar eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 23. júní til 2. júlí. Einstaklingar í úrtaki voru valdir af handahófi úr viðhorfahópi Gallup.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert