Þokkalega hratt landris mælist í Öskju

Land hefur risið um hátt í 30 sentimetra frá því …
Land hefur risið um hátt í 30 sentimetra frá því í september í fyrra. mbl.is/Árni Sæberg

Landið við eldstöðina Öskju hefur risið um 60 sentimetra frá því að landris tók fyrst að mælast þar í ágúst árið 2021.

Landris hefur verið stöðugt frá upphafi mælinga, að sögn Benedikts Gunnars Ófeigssonar, sérfræðings á sviði jarðskorpuhreyfinga hjá Veðurstofu Íslands, en land hefur risið um hátt í 30 sentimetra frá því í september í fyrra.

Aðspurður segir Benedikt að landrisið teljist þokkalega hratt.

„Þetta er ekkert óvenjulegt,“ segir hann og bætir við að ekki séu vísbendingar um að eitthvað sé yfirvofandi. Vel sé fylgst með þróuninni í og við Öskju.

Getur haldið lengi áfram

„Það er kvikusöfnun þarna nokkuð örugglega, það getur haldið áfram lengi svona án þess að dragi til tíðinda.“

Miðja landrissins er undir vestanverðu Öskjuvatni. Ef sprengigos yrði í Öskju er ekki víst að það yrði stórt, að sögn Benedikts.

„Askja getur búið til ansi stór gos, en hún býr til miklu fleiri lítil.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert