Alls gerðu 4.045 manns sér ferð að eldgosinu við Litla-Hrút á Reykjanesskaga í gær samkvæmt tölum frá Ferðamálastofu.
Flestir voru við upphaf Meradalaleiðar að Litla-Hrúti um fimmleytið í gær, eða 436 manns.
Meradalaleið að gosstöðvunum hefur verið lokað fram á laugardag til að tryggja öryggi ferðamanna og viðbragðsaðila. Er því lokað fyrir alla umferð gangandi að gossvæðinu við Litla-Hrút.
Í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum kemur fram að lokunin verði endurskoðuð eftir fund viðbragðsaðila á laugardagsmorgun.