Aðstöðugjald við Reynisfjöru

Í næstu viku stendur til að taka upp aðstöðugjald á …
Í næstu viku stendur til að taka upp aðstöðugjald á bílastæðunum við Reynisfjöru. Greiða þarf 750-1.000 krónur fyrir hvern fólksbíl. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Til stendur að taka upp aðstöðugjald fyrir afnot af bílastæðunum við Reynisfjöru í næstu viku. Íris Guðnadóttir, einn landeigenda við Reynisfjöru, segir í samtali við Morgunblaðið tilganginn með innleiðingu aðstöðugjaldsins fyrst og fremst vera að standa straum af kostnaði og stuðla að innviðauppbyggingu og rekstri svæðisins.

Í samræmi við það sem gengur og gerist

„Það er gífurlegur straumur ferðafólks í Reynisfjöru og bílaplanið er sprungið,“ segir Íris. „Bílar hafa verið að leggja upp með veginum og þá skapast slysahætta og mjög mikil óreiða á bílastæðinu. Því erum við í rauninni aðallega að reyna að koma skipulagi á bílastæðamál og auka umferðaröryggi,“ bætir hún við.

Að sögn Írisar munu fólksbílar þurfa að greiða 1.000 krónur á neðra bílastæði svæðisins með tilkomu aðstöðugjaldsins, en 750 krónur sé lagt á því efra.

Þá verður annað gjald fyrir rútur og önnur ökutæki. Gjaldið verður innheimt með greiðslulausn Parka en Íris segir gjaldskrána í Reynisfjöru vera í samræmi við það sem gengur og gerist á Suðurlandi.

Hagnaðurinn mikilvægur þjónustunni

„Fólk er hissa á því að við séum ekki löngu byrjuð á þessu,“ segir Íris, aðspurð hvaða viðbrögð aðstöðugjaldið hafi vakið hingað til.

„Ferðaþjónustuaðilar á Suðurlandi hafa gefið sig á tal við landeigendurna hérna og furðað sig á því að við séum ekki að gera eitthvað og taka aðstöðugjald eins og nágrannar okkar,“ segir Íris sem bætir við að hugmyndir um aðstöðugjald á svæðinu hafi verið á lofti um nokkurra ára skeið.

Hún segir hagnaðinn af aðstöðugjaldinu mikilvægan þeirri þjónustu sem er boðið upp á við Reynisfjöru. Með honum sé hægt að ýta undir bæði innviðauppbyggingu og viðhald á svæðinu, sem lengi hafi verið í höndum annarra.

„Rekstraraðilar veitingastaðarins hafa séð um bílaplanið þar fyrir utan, mokað snjó, borað í holur og annað slíkt á því plani. Þeir hafa einnig séð um göngustíginn frá bílaplaninu og niður í fjöru. Hún segir mikið viðhald felast í rekstri Reynisfjöru. Til dæmis þurfi að hirða rusl á svona stórum ferðamannastað og bjóða verði gestum upp á salernisaðstöðu, en hvoru tveggja fylgir talsverður kostnaður. Núna mun aðstöðugjaldið halda utan um þetta,“ segir Íris að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert