„Samtal er alltaf af hinu góða, við getum örugglega gert betur í því að tala við borgarana og atvinnurekendur,“ segir Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, samgöngustjóri Reykjavíkurborgar.
Íbúasamtök miðborgar Reykjavíkur hafa mótmælt ólýðræðislegum vinnubrögðum sem yfirvöld í Reykjavík viðhöfðu þegar ákvörðun um um breytingar á tilhögun bílastæðagjalda í miðborginni var tekin.
Samtökin skora því á borgarstjórn að draga til baka breytingarnar auk þess sem þau biðla til borgarinnar um að gera ekki breytingar í framtíðinni nema að undan fari upplýst umræða og lýðræðislegt samráð við íbúa svæðisins.
Guðbjörg segir mikilvægt að huga að því hverju samtalið eigi að skila, það sé ekki gott að vera í samtali og samráði um eitthvað sem ekki er raunverulegt samráð, „enda ekkert fengið með sýndarsamráði.“
Hún áréttar að með þessu eigi hún ekki við að borgin hefði ekki átt að ræða við íbúðaráð að þessu sinni, heldur að huga þurfi að því hverju samtalið eigi að skila.
„Við hækkun bílastæðagjalda er ákveðnu verklagi fylgt, ákveðin stefna um það hvernig við umgöngumst gjaldskylduna og hvenær við færum hana inn útskýrir Guðbjörg. Stundum erum við að setja inn gjaldskyldu því íbúar kalla sérstaklega eftir því, en eins og í þessu tilfelli, þar sem fjöldi verslana og þjónusta er í nágreninu, þá höfum við talið að við getum fylgt þessu verklagi,“ segir Guðbjörg. Það er síðan þegar gjaldskyldan er tekin í gagnið að íbúar eru upplýstir.
Hluti breytinganna felur í sér að bíll innan P1 svæðis má ekki vera lagður í stæði lengur en þrjár klukkustundir í senn. Aðspurð segir Guðbjörg þetta vera nýtt hjá þeim, en jafnframt að innan þessa svæðis sé mikið til atvinnustarfsemi þó auðvita séu þar líka íbúðir.
Hún segir hámarkstímann þó ekki ná til þeirra sem eru með íbúakort eða hreyfihamlaðra. Hún áréttar þó að breytingarnar hafi ekki tekið gildi og að þær verði kynntar íbúum áður.
Guðbjörg segist hafa fullan skilning á því að fólk sé óöruggt um það hvernig allt muni virka, þegar breytingar eru gerðar á því sem áður hefur verið. Hún bætir þó við að aðrir hagsmunir vegi líka þungt og sé gestum þessara íbúa til góða, því meiri líkur séu á því að þeir fái stæði. Jafnframt verði auðveldara fyrir þá sem eiga erindi í ákveðnar búðir að fá stæði til þess að stökkva inn segir hún að lokum.