ESB styrkir samstarf HR um 2,2 milljarða

Frá fundi stjórnenda hinna níu evrópsku rannsóknarháskóla sem standa að …
Frá fundi stjórnenda hinna níu evrópsku rannsóknarháskóla sem standa að NeurotechEU-verkefninu. Ljósmynd/Aðsend

Háskólinn í Reykjavík ásamt átta öðrum evrópskum háskólum munu fá samtals 2,2 milljarða króna í styrk á fjórum árum frá Evrópusambandinu, að því er segir í tilkynningu frá HR.

Styrkurinn kemur í gegnum Erasmus+ og er til styrktar NeurotechEU-samstarfinu sem HR er hluti af.

NeurotechEU er samstarfsverkefnið háskólana á sviði taugatækni (e. neuro-technology).

„Nemendur háskólanna geta til að mynda sótt nám í öllum háskólunum og öðlast með því alþjóðlega reynslu og njóta góðs af sérþekkingu hvers háskóla með þverfaglegum verkefnum og tækniþróun á þessu sviði,“ segir í tilkynningu.

Auk HR eru aðildarháskólar NeurotechEU: Radboud-háskólinn í Hollandi, Miguel Hernández-háskólinn í Elche á Spáni, Karolinska-háskólasjúkrahús í Svíþjóð, Bonn-háskólinn í Þýskalandi, Boğaziçi-háskólinn í Tyrklandi, Oxford-háskóli á Englandi, Iuliu Hațieganu-læknaháskólinn í Rúmeníu, Debrecen-háskólinn í Ungverjalandi og Lille-háskólinn í Frakklandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert