Hæstiréttur Íslands hefur veitt leyfi sitt til áfrýjunar dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. maí beint til Hæstaréttar í máli Ástríðar Grímsdóttur, skipaðs héraðsdómara, gegn íslenska ríkinu er varðar breytta útreikningsaðferð við launabreytingu Ástríðar sem gerð var með ákvörðun frá 29. júní 2022. Leyfisbeiðandi er íslenska ríkið.
Fól téð breytt útreikningsaðferð í sér endurkröfu á hendur héraðsdómaranum á hluta greiddra launa auk þess sem laun Ástríðar fyrir júnímánuð í fyrra voru lækkuð. Féllst héraðsdómur á kröfur hennar um ógildingu ákvarðana íslenska ríkisins.
Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að ákvörðun ríkisins um að breyta útreikningsaðferð við breytingu launa hennar teldist stjórnvaldsákvörðun og vísað var til þess að Ástríður væri embættismaður samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og þægi laun samkvæmt einhliða valdboði en ekki tvíhliða samningi sem grundvallaðist á kjarasamningi.
Breytingin hefði áhrif á launakjör hennar og félli því ekki í flokk almennra stjórnunarheimilda stjórnvalda. Þá þyrfti að horfa til þess að dómarar skyldu vera sjálfstæðir í störfum sínum og óháðir öðrum þáttum ríkisvaldsins.
Vísaði dómurinn til þess markmiðs löggjafans að girða að mestu fyrir aðkomu framkvæmdarvaldsins að ákvörðun launa dómara með þeim hætti að hlutlægt lögfest viðmið myndi ákvarða laun þeirra og að breytt útreikningsaðferð launa hefði raskað þeim fyrirsjáanleika og gagnsæi.
Taldi héraðsdómur málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga ekki hafa verið fylgt og annmarkar ákvörðunarinnar hafa verið verulega og féllst því á að ógilda ákvörðunina um hina breyttu útreikningsaðferð. Þá hefði málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga heldur ekki verið fylgt við töku ákvörðunar um að endurkrefja héraðsdómarann um laun sín að hluta og með sömu rökum var fallist á kröfu Ástríðar um ógildingu ákvörðunarinnar um lækkun launa fyrir júní 2022.
Byggir ríkið beiðni sína á því að málið hafi verulegt fordæmisgildi og vísar til þess að ágreiningur málsins lúti að launauppfærslu fjölda aðila, meðal annars alþingismanna, ráðherra og tiltekinna embættismanna, til að mynda dómara, saksóknara, lögreglustjóra og seðlabankastjóra, ráðuneytisstjóra og ríkissáttasemjara.
Niðurstaða málsins varði einnig þá sem taka eftirlaun í samræmi við laun þessa hóps. Þá telur leyfisbeiðandi, íslenska ríkið, að niðurstaða málsins hafi almenna þýðingu við túlkun og beitingu á tilteknum ákvæðum stjórnsýslulaga og almennum efnisreglum stjórnsýsluréttar. Loks telur leyfisbeiðandi að niðurstaða málsins hafi verulega samfélagslega þýðingu enda verði að gera ríkar kröfur þegar komi að réttindum og skyldum þess hóps sem ákvarðanirnar vörðuðu.
Fellst Hæstiréttur á að dómur í málinu geti haft fordæmisgildi, almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna og verulega samfélagslega þýðingu að öðru leyti og samþykkir að því sögðu beiðni um leyfi til áfrýjunar.