Loka á Höfðatorgi í samstarfi við heilbrigðiseftirlit

Hamborgarafabrikkan Höfðatorgi.
Hamborgarafabrikkan Höfðatorgi. mbl.is/Styrmir Kári

Hamborgarafabrikkunni á Höfðatorgi verður lokað í dag til þess að hægt sé að sótthreinsa og tryggja öryggi viðskiptavina. Ákvörðun þessi var tekin í samráði við heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Maríu Rún Hafliðadóttur, framkvæmdastjóra Hamborgarafabrikkunnar. 

Þá séu atburðir liðinna daga stjórnendum mikið áfall og er viðskiptavinum og starfsmönnum þakkað fyrir skilning og þolinæði. 

Tilkynninguna í heild sinni má sjá hér að neðan. 

Greint var frá því fyrr í vikunni að umræða hefði skapast um mögulega matareitrun á stað Hamborgarafabrikkunnar í Kringlunni um liðna helgi. Í kjölfarið var staðnum lokað, heilbrigðiseftirlitið fengið á vettvang og allt sótthreinsað. 

Vinnutilgáta hjá heilbrigðiseftirlitinu hefur verið sú að um nóróveirusýkingu sé að ræða og því er tilfellið flokkað sem hópsýking. 

Í skriflegu svari frá heilbrigðiseftirlitinu til mbl.is í gær kom fram að rannsókn málsins væri enn í fullum gangi, ekki væri búið að ná í alla sem gætu hafa smitast á staðnum og að ekki væri búið að staðfesta að um nótóveirusýkingu væri að ræða. 

Tilkynning Hamborgarafabrikkunnar

„Ein og komið hefur fram í fréttum var Hamborgarfabrikkunni í Kringlunni lokað tímabundið í samstarfi við heilbrigðiseftirlitið. Var það gert til að gæta fyllsta öryggis í kjölfar ábendinga frá viðskiptavinum okkar. Í samstarfi við heilbriðgiseftirlitið var staðurinn skoðaður  og sótthreinsaður með öryggi viðskiptavina og starsmanna í huga.  Fabrikkan í Kringlunni hefur verið opnuð á ný.  Eigendur Fabrikkunar hafa ákveðið að loka staðnum á Höfðatorgi í dag og ráðast í sömu aðgerðir og var farið í í Kringlunni með öryggi viðskiptavina og starfsmanna í huga.  

Hamborgarafabrikkan hefur starfað í rúm 13 ár og ávallt lagt áherslu á vönduð vinnubrögð og gæði matar og þjónustu. Það er okkur því mikið áfall að upplifa atburði af þessum toga. Við þökkum viðskiptavinum okkar og starfsmönnum fyrir skilninginn og þolinmæðina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert