„Það er í raun tannheilsa íslenska refastofnsins sem gerir honum kleift að lifa almennilega af,“ segir Ester Rut Unnsteinsdóttir, spendýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, í samtali við blaðamann Morgunblaðsins.
Í nýútkominni fræðigrein sem birtist í vísindatímaritinu Global Change Biology, er greint frá rannsóknum á tannskemmdum í íslenskum heimskautarefum.
Í rannsókninni voru skoðaðar tennur úr 854 refum frá 29 ára tímabili. Niðurstöðurnar sýna að hitastig undir frostmarki og harðskeytt veðurfar hefur slæm áhrif á tannheilsu.
Ester gegndi mikilvægu hlutverki í rannsókninni, þó einkum vegna þess að hún sér um að vakta stöðu íslenska refastofnsins fyrir Náttúrufræðistofnun Íslands.
„Hlutverk mitt hjá Náttúrufræðistofnun er að vakta íslenska refastofninn. Við fáum refahræ afhend frá veiðimönnum og bændum sem hafa fellt þá. Ég tek hræin og mæli þau. Síðan aldursgreini ég þau en til þess að gera það þarf að sjóða hausinn og kjálkana til að losa um tennurnar og komast að sjálfri tannrótinni.
Restin af tönnunum er varðveitt í kjálkanum sem við söfnum og við eigum eintök sem ná aftur til ársins 1979. Í heildina eru þetta rúmlega 12.000 kjálkar. Kjálkarnir sem sérfræðingarnir notuðu í rannsókninni koma úr þessu safni,“ segir Ester.
Meira má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag, föstudag.