Varast beri að gera náttúruperlu að „drive in“

Tómas Guðbjartsson, læknir og fararstjóri í Ferðafé­lagi Íslands.
Tómas Guðbjartsson, læknir og fararstjóri í Ferðafé­lagi Íslands. Samsett mynd

Hér verður að stíga varlega til jarðar – og mikilvægt að stórkostlegt umhverfið í kringum Keili og Litla-Hrút verði ekki umhverfisslysi að bráð. [...] Aðgengi má bæta án þess að gera náttúruperlur að einhverju „drive in“-fyrirbæri.“

Þetta segir Tóm­as Guðbjarts­son, lækn­ir og fararstjóri í Ferðafé­lagi Íslands, í færslu á Facebook-síðu sinni. Í samtali við mbl.is segist honum vera afar annt um að svæðið í kringum gosstöðvarnar fái að halda sér. 

Tómas svarar með færslu sinni fyrirhuguðum áformum Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra um að útbúa nýtt bílastæði við Vigdísarvelli sem myndi stytta gönguna að gosstöðvunum verulega. Jafnframt íhugaði Guðrún að útbúa akfæran veg eða að bjóða upp á bílferðir að sjónarspilinu.

„Umhverfisslys að stærri gerðinni“

Það er rétt að leiðin frá Höskuldarvöllum er mun styttri en sú frá Suðurstrandavegi, og sennilegt að sú gönguleið og önnur frá bílastæðinu við Keili verði í framtíðinni nýttar til göngu að Litla Hrúti.

Þar er sjálfsagt að stækka bílastæði og lagfæra slóða sem þarna eru fyrir, en að útbúa nýjan akveg að Litla-Hrúti yrði umhverfisslys af stærri gerðinni – og vanhugsuð framkvæmd,“ segir í færslu Tómasar.

Tómas ítrekar að umhverfið í kringum Keili og Litla-Hrút sé einstakt. Hann segir mikilvægt að rýra ekki ásýnd svæðisins með framkvæmdum líkt og gert var með varnarveggjum á svæðinu sem eru ekki til prýðis í dag að mati Tómasar.

Þykir annt um svæðið og vill að það haldi sér

Tómas segir í samtali við mbl.is að hann þekki svæðið inn og út og að hann hafi gert göngukort fyrir Ferðafélag íslands. Honum þykir afar vænt um að svæðið fái að halda sér eins og það er.

„Á sama tíma skil ég mjög vel þetta með að bæta aðgengi. Það mætti gera t.d. með því að nýta vegi sem þegar eru til að sunnanverðu og gætu t.d. verið sexhjól eða bílar sem ekki þurfa stóra vegi og skemma lítið,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Færslu Tómasar má lesa hér fyrir neðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert