„Við erum örlítið smeyk. Reykurinn ertir augun. En þetta er þess virði,“ sögðu bandarísk hjón við blaðamann mbl.is um leið og þau stigu út úr reykmekkinum við Litla-Hrút síðdegis í gær.
Margmennt var við gosstöðvarnar í gær og fór fjöldi fólks inn fyrir skilgreint hættusvæði, sjálfsagt ekki fullkomlega meðvitað um áhættuna, til þess að komast nær eldgosinu.
Reykurinn stafaði af miklum gróðureldum sem urðu í kringum nýtt hraunið og lagði hann yfir stóran hluta gönguleiðarinnar vegna vindáttar.
Lokað hefur verið fyrir alla gangandi umferð að gossvæðinu við Litla-Hrút og stendur lokunin fram á laugardag. Er þetta sagt gert til þess að tryggja öryggi ferðamanna og viðbragðsaðila.
„Maður þyrfti að vera ómannlegur til þess að láta þetta ekki á sig fá. Þetta er erfið ganga og sérstaklega út af reyknum,“ sagði Chris sem var nýkominn til landsins ásamt konu sinni Cynthiu.
Chris og Cynthia, sem eru frá Norður-Karólínu í Bandaríkjunum, voru á leiðinni norður þegar þau fréttu af gosinu og ákváðu að leggja krók á leið sína til þess að berja það augum.
Þau sögðust ánægð með ákvörðunina þrátt fyrir að gangan að gosinu hefði verið erfiðari en þau bjuggust við. Þau voru vel búin og sögðust sérstaklega þakklát fyrir að hafa verið með göngustafi meðferðis.
„Við erum auðvitað bæði í eldri kantinum en við gátum þetta samt. Erfiðast var að ganga yfir hraunið og vaða reykinn til að komast að gosinu. En nú erum við komin hingað og erum ósköp fegin.
Þetta er auðvitað tækifæri sem manni býðst líklega bara einu sinni á ævinni. Og þetta er magnað sjónarspil, alveg stórfenglegt,“ sagði Chris.
Þið eruð ekkert smeyk við að standa svona nálægt spúandi eldgosinu?
„Jú, svolítið smeyk, ég verð að viðurkenna það. En það gerir þetta ...“ sagði Cynthia og hikaði. „Spennandi. Við getum orðað það þannig.“
„Ég heyri að þetta svæði sé mjög virkt og jafnvel gætu opnast fleiri sprungur,“ skaut Chris inn í og skimaði í kringum sig.
Þá kom aftur hik á Cynthiu sem leit snöggt á eiginmann sinn. „Ég held við ættum kannski bara að fara að koma okkur aftur til baka að bílastæðinu.“