„Þetta er náttúrulega mjög erfitt viðureignar af því að þetta er mikil sina og mikill reykur. Menn eru að vinna með grímur allan tímann meðan þeir eru þarna á vettvangi. Þetta er mjög erfitt við að eiga.“
Þetta segir Guðmundur Karl Halldórsson, varðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, um stöðu mála við gosstöðvarnar á Reykjanesskaga.
Blaðamaður ræddi við Guðmund á slökkvistöðinni í Grindavík, en hann sinnti slökkvistörfum í gærkvöldi í nágrenni eldgossins við Litla-Hrút þar sem unnið var að því að slökkva sinuelda til klukkan tvö í nótt.
„Það verður haldið áfram í dag. Þeir eru komnir upp, ég er að koma úr Reykjavík og fer til þeirra og við reynum að vinna í þessu í dag til að reyna að slá betur á þetta.“
Hann segir aðstæður erfiðar og reiknar ekki með því að unnt verði að klára verkið í dag.
„Ég veit ekki hvernig þetta er eftir nóttina, en eins og þetta leit út í gærkvöldi þá líst mér nú ekki á þetta.“
Slökkviliðsmenn hafa notað vinnuvélar og tankbíla til að ferja vatn úr Grindavík á gossvæðið. Þá hefur þyrla Landhelgisgæslunnar aðstoðað við slökkvistörf.
„Við notum allar bjargir sem við höfum,“ segir Guðmundur.
„Vonandi gengur þetta vel í dag, það er aðalatriðið.“
Reykurinn er mikill á svæðinu og hafa slökkviliðsmenn beðið um reykköfunartæki, að sögn Guðmundar.
„Yfirleitt höfum við bara verið með grímur með síu. Ég veit ekki hvort þetta hefur versnað frá því í gærkvöldi, við þurftum ekki að vera með reykköfunartæki í gærkvöldi og nótt.“