Viðkoma rjúpustofnsins eftir kuldahret ljós í ágúst

Þetta kemur allt í ljós í ágúst.
Þetta kemur allt í ljós í ágúst. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rjúpnatalningu ársins er lokið, eftir er talning unga en henni lýkur undir lok mánaðar. Í ljós kemur í ágúst hvort að kuldahret sumarsins hafi áhrif á viðkomuna.

„Við vitum það að rjúpan er mjög viðkvæm fyrir hretum í júní og júlí og þessar talningar fara fram í síðari hluta júlí. [...] Það er í byrjun ágúst sem að niðurstöður liggja fyrir,“ segir Ólafur Karl Nielsen, fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Hvað varðar stærð stofnsins segir hann hana svipaða og í fyrra.

„Það var þokkalega mikið af rjúpu í fyrra og þetta er á svipuðum nótum eða aðeins minna núna, það er svona aðeins breytilegt eftir landshlutum. Það virðist vera fækkun vestanlands en svo þegar þú ert kominn yfir á austurhelming landsins þá er áberandi uppsveifla. En svona yfir línuna þá er þetta á svipuðum nótum og í fyrra, sem sagt þokkalega mikið af rjúpu,“ segir Ólafur.

Uppistaða veiðistofnsins ungfuglar

Þið merkið engar sérstakar breytingar hjá stofninum?

„Það eru yfirleitt miklar breytingar og miklar sveiflur á milli ára, það er aldrei kyrrstaða en þetta er á þessu sama róli og stofninn hefur verið í einhverja áratugi. Það er ekkert óvænt í þeim skilningi.“

Staða stofnsins sé þokkaleg þessi misserin en viðkomubrestur komi ekki í ljós fyrr en í ágúst.

 „Varðandi veiðistofninn, stærð hans ræðst að miklu leyti af viðkomunni. Uppistaðan í veiðinni ár hvert eru ungfuglar frá sumrinu,” segir Ólafur.

Ekki sé hægt að segja til um stærð veiðistofnsins fyrr en viðkoman sé ljós.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert