Alltof algengt að fólk leggi í P-merkt stæði

Hreinlega ekki í boði fyrir alla að leggja í venjuleg …
Hreinlega ekki í boði fyrir alla að leggja í venjuleg stæði. Samsett mynd

Það er alltof algengt að fólk leggi í P-merkt stæði án þess að vera með P-merki segir Margrét Lilja Aðalsteinsdóttir formaður Sjálfsbjargar í samtali við mbl.is.

Mbl.is greindi frá því í dag að Porche-bif­reið með einka­núm­erið EXIT hefði vakið athygli vegfaranda, þar sem bifreiðin stóð í sérmerktu stæði fyrir hreyfihamlaða fyrir utan Landsbankann og Héraðsdóm Reykjaness. 

Stæðin eru þarna af ástæðu 

Margrét segir þetta því miður vera vandamál á mjög mörgum stöðum, alltof algengt sé að fólk leggi í P-merkt stæði án þess að hafa P-merki. 

„P-merkt stæði eru algjör forsenda þess að P-merkja hafar fái að taka þátt í lífinu fyrir utan heimili,“ segir Margrét. Það er því hamlandi fyrir P-merkjahafa ef stæðið er upptekið af einhverjum sem ekki á rétt á að vera þar. 

„Það er hreinlega ekki í boði fyrir alla að leggja í venjulegt stæði,“ segir Margrét. 

Hún biðlar til þeirra sem ekki eru P-merkja hafar að hugsa aðeins víðara en um sjálft sig, „þó þú ætlir bara að stoppa í örstutta stund þá getur það haft gríðarleg áhrif á annað fólk sem þarf á þessum stæðum að halda.“

Stæðin oft ekki nothæf

Aðspurð segir Margrét P-merkt stæði alltof fá og að þeim þurfi að fjölga. Hún segir það alltof oft sem kvótinn sem settur hefur verið fram af Húsnæðis og mannvirkjastofnun er ekki uppfylltur, en það er mismunandi eftir því hvernig byggingar eru hversu mörg P-merkt stæði eiga að vera þar. 

Þá segir hún alltof oft sem P-merkt stæði eru ekki nothæf vegna þess að þau uppfylla ekki allar kröfur. Í þeim tilfellum er reynt að hafa samband við eigendur bygginganna en Margrét segir alltof sjaldan sem eitthvað sé gert í því. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert