Haga sér eins og kóngar í ríki sínu

Örninn er stærsti og sjaldgæfasti ránfugl landsins. Vænghaf arnarins er …
Örninn er stærsti og sjaldgæfasti ránfugl landsins. Vænghaf arnarins er yfir tveir metrar og er hann oft nefndur konungur fuglanna. Ljósmynd/Kristinn Haukur Skarphéðinsson

Stofn hafarna á Íslandi fer stækkandi og fer varpsvæði fuglanna breikkandi. Kristinn Haukur Skarphéðinsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, segir þróunina jákvæða hjá íslenska erninum, sem eigi það til að haga sér eins og kóngur í ríki sínu.

„Varpútbreiðslan er í Faxaflóa, vestur um og yfir í Húnaflóa,“ segir Kristinn, sem tekur fram að þó erni sé hægt að finna um allt land séu þeir algengastir á vestanverðu landinu.

Þá sé bæði fjölgun fugla og aukin útbreiðsla varpsvæðis að eiga sér stað um þessar mundir.

Að sögn Kristins eru í kringum 90 óðul í ábúð í augnablikinu og vinna sérfræðingar að því að merkja nánast alla arnarunga svo hægt sé að fylgjast með þróun stofnsins hér á landi.

Fylgjast vel með stofninum

„Í mörg ár hafa nánast allir arnarungar sem komið hafa upp verið merktir, en á þessa unga eru sett litmerki svo hægt sé að greina ungana á ljósmyndum,“ segir Kristinn sem fylgist vel með arnarstofninum.

Á Íslandi er staðbundinn arnarstofn sem á það til að ferðast landshluta á milli, en fer yfirleitt ekki út fyrir landsteinana. Vegna þess að stofninn er staðbundinn eiga íslenskir ernir það til að fara styttri vegalengdir en þeir sem finna má víða í Evrópu.

„Það er auðveldara fyrir erni í Evrópu að fara lengra en þeir sem dvelja á Íslandi því ernir forðast að fara yfir opið haf. Þess vegna má búast við löngum leiðum hjá þeim fuglum sem verpa á meginlandi,“ segir Kristinn sem segir fuglana geta náð allt að 50 kílómetra hraða á flugi.

„Hraði fuglanna fer eftir því hvort það sé meðvindur eða mótvindur,“ segir Kristinn. „Þeir eru praktískir þannig að þeir vilja fljúga sem minnst og svífa sem mest.“

Sérstaða íslensku arnanna

Ásamt því að fljúga ekki jafn langar vegalengdir og ernir sem hafast við á meginlandi, snýr sérstaða íslensku arnanna einnig að erfðafræðilegum eiginleikum þeirra.

„Sérstaða íslensku arnanna er að þeir hafa verið einangraðir frá öðrum stofnum þannig að þeir eru erfðafræðilega frábrugðnir,“ segir Kristinn sem bætir við að auk þess eigi íslenskir ernir það til að haga sér eins og kóngar í ríki sínu. „Þeir taka sér pláss og vel það,“ segir hann loks.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka