Í svitabaði á Ítalíu

Ferðamenn skýla sér frá sólinni undir regnhlífum í Rome.
Ferðamenn skýla sér frá sólinni undir regnhlífum í Rome. AFP/Alberto Pizzoli

„Þetta er svitabað og maður verður bara að taka á því, maður er blautur frá toppi ofan í tær,“ segir Svala Lind Ægisdóttir sem stödd er á Ítalíu um þessar mundir.

Yfirvöld á Ítalíu hafa gefið út rauðar viðvaranir í 16 borgum þar í landi vegna hitans, þar á meðal í Bologna, Róm og Flórens.

„Það er mjög heitt, en ekkert hræðilegt,“ segir Svala spurð hvernig hitinn sé að fara með hana. Þegar mbl.is ræddi við hana sat hún samt sem áður á veitingahúsi í Napolí og sagði svitann leka af sér og ferðafélögum sínum.

Molla í borgunum

Hún segist hafa byrjað að finna fyrir hækkandi hitastigi á föstudaginn, „það er svo mikil molla inni í borgunum, miklu meira heldur en í sveitinni,“ segir Svala, sem fór með vinkonum sínum til Ítalíu, í ítölsku skóla í Marche héraði, á vegum Jóhönnu Gunnarsdóttur.

Aðspurð segist Svala ekki hafa orðið vör við aðgerðir á götunum vegna hitans, „það eru allir svolítið að kafna, en við erum ekkert að sjá neina sjúkrabíla,“ segir hún.

Þá segir hún þær sjálfar vera að passa upp á að drekka nóg af vatni, en hópurinn var staðsettur í Róm í dag þar sem mælir sýndi að 36 gráðu hiti væri í borginni.

Á morgun liggur leið þeirra til Capri og þó Svala eigi von á því að hitinn þar verði mikill, vonast hún til þess að sjávargolan muni kæla hópinn aðeins niður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert