Klara Ósk Kristinsdóttir
Vel hefur gengið að ráða niðurlögum gróðurelda við gosstöðvarnar í dag, segir Gunnar Örn Arnarsson, stýrimaður Landhelgisgæslunnar.
Landhelgisgæslan hefur síðustu þrjá daga unnið að því að slökkva gróðurelda við gosstöðvarnar með slökkviliðinu á staðnum.
Meðal verka landhelgisgæslunnar er að ferja svokallaða bamba á svæðið. Í hverjum bamba er tonn af vatni. Bömbunum er raðað meðfram eldlínunni þar sem slökkviliðsmenn hafa komið sér fyrir og geta því sprautað beint á eldinn, segir Gunnar Örn.
Landhelgisgæslan notast einnig við slökkviskjólu til þess að ráða niðurlögum gróðureldanna. Slökkviskjólan tekur um 2000 lítra af vatni í hverri ferð og má því gera ráð fyrir að hún nýtist vel til slökkvistarfa.
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort slökkvistarf haldi áfram á morgun en Gunnar segir að ákvörðun þess efnis verði tekin á stöðufundi viðbragðsaðila í fyrramálið.