Sýnataka bendir ekki til nóróveirusmita

Grunur um að hópsýkingin sé af völdum þekktrar bakteríu.
Grunur um að hópsýkingin sé af völdum þekktrar bakteríu. mbl.is/Styrmir Kári

Niðurstöður sýnatöku benda til þess nóróveiran hafi ekki verið orsök veikinda hjá gestum Hamborgarafabrikkunnar í síðustu viku.

Grunur er um að veikindin séu af völdum þekktrar bakteríu sem einnig olli hópsýkingu á veitingastað á höfuðborgarsvæðinu síðasta haust, segir Ása Atladóttir, verkefnisstjóri á sviði sýkingavarna hjá embætti sóttvarnalæknis, í samtali við mbl.is 

Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur barst í síðustu viku fjöldi tilkynninga vegna mögulegrar matareitrunar á stöðum Hamborgarafabrikkunnar í Reykjavík. Tilgáta eftirlitsins var sú að um nóróveiruna væri að ræða. 

Eiga eftir að staðfesta gruninn

„Við erum að rannsaka þetta, það hefur staðið svolítið á því að við höfum ekki fengið sýni,“ segir Ása. Þó hafa borist tvö sýni sem sýna að veikindin séu ekki af völdum nóróveirunar heldur af völdum annarrar þekktrar bakteríu. 

Unnið er að því að safna fleiri sýnum til þess að fá gruninn staðfestan. Við eigum von á fleiri sýnum eftir helgi, þegar búið er að rannsaka þau verður komin öruggari niðurstaða segir Ása.

„Við þurfum að greina þetta hjá nokkrum í viðbót til þess að geta sagt að þetta sé ástæðan,“ bætir hún við. 

Ása telur þó að flestir sem tilkynntu um veikindi séu búnir að ná sér, „það er sem betur fer gangurinn á þessum sýkingum, þetta verður svaka skellur og margir eru veikir í einu en síðan jafnar fólk sig,“ segir hún. 

Hennar von er að veikindin verði afstaðin á morgun, „ef fólk heldur áfram að veikjast þá er greinilega eitthvað mengað á staðnum sem við eigum eftir að finna,“ segir Ása. Það getur verið að það sé eitthvað þrátt fyrir að búið sé að sótthreinsa staðinn, maður veit aldrei nákvæmlega hvaðan svona sýking berst í matinn. Hvort það komi frá einhverjum sem er að elda matinn, eða hvort sýkingin hafi borist með hráefni frá framleiðanda. 

Getur skeð hvar og hvenær sem er 

„Við viljum stíga varlega til jarðar, því við vitum ekki hvort þetta sé yfirstaðið auk þess sem við erum ekki með allar ástæður á hreinu,“ segir Ása. 

Hún vonar þó innilega, veitingastaðarins vegna, að tekist hafi að hreinsa staðinn, enda óskar sér enginn að lenda í aðstæðum sem þessum. „Þetta getur náttúrulega komið fyrir á hvaða veitingahúsi sem er,“ segir Ása og bætir við að þetta sýni hversu mikilvægt er að fara eftir þeim reglum sem heilbrigðiseftirlitið setur .

„Það eru öll veitingahús sem þurfa að passa þetta, starfsfólk allra veitingahúsa, af því að þetta getur skeð hvar og hvenær sem er,“ segir Ása. 

„Það getur hver sem er verið með hvað sem er, því verða allir að gera það sem í þeirra valdi stendur til þess að bera þetta ekki áfram.“ „Það þurfa því allir að vera duglegir að þvo á sér hendurnar, alltaf,“ segir Ása. 

Smitleiðir

Ása segir heilbrigðiseftirlitið, matvælastofnun og sóttvarnarlækni í miðri ánni að reyna að finna út úr því hvaðan smitið barst. 

Þetta er eins og nóróveiran, hvort heldur sem það er bakterían eða veiran sem kemst í matinn. Maður þarf að innbyrða hana til þess að hún fari að valda sýkingareinkennum segir Ása. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert