Gossvæði lokað en staða endurmetin síðar í dag

Myndir teknar af Meradalaleið um kl. 6.30 í morgun. Á …
Myndir teknar af Meradalaleið um kl. 6.30 í morgun. Á fyrri myndinni stígur gosmökkurinn upp frá gígnum við Litla Hrút og berst hátt yfir gönguleiðina til suðurs út á sjó. Seinni myndin sýnir stöðuna við Hraunsel - Vatnsfell. Þar má sjá reyk frá gróðureldum, sunnan og suðaustan við gosstöðvarnar, sem er að dreifast yfir gönguleiðina. Vonir standa til að geta slökkt í þessum eldum fljótlega og í framhaldi af því að opna Meradalaleið. Ljósmynd/Lögreglan á Suðurnesjum

Gosstöðvar verða áfram lokaðar í dag, að minnsta kosti þar til eftir annan fund viðbragðsaðila sem fer fram klukkan 13.00 í dag. Þá verður staðan endurmetin. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum. 

Þar segir að reykur frá gróðureldum berist yfir gönguleið að gosstöðvum en við þær aðstæður sé ekki hægt að tryggja öryggi fólks á svæðinu. 

Bjarga þurfti tveimur í nótt

Unnið sé að því að slökkva eldana og aðstoðar þyrla Landhelgisgæslunnar við það sem fyrr. 

„Þrátt fyrir að lokað sé inn á svæðið þurftu björgunarsveitir eftir sem áður að leita að tveimur ferðamönnum í nótt. Karlmanni á fertugsaldri sem fannst á Höskuldarvallavegi á sjötta tímanum í morgun og konu sem fannst austan við Keili á þriðja tímanum í nótt,“ segir í tilkynningunni. 

Meðfylgjandi var eftirfarandi spá veðurvaktar um gasdreifingu í dag: 

Norðan og norðvestan 5-8 m/s, en bætir heldur í vind síðdegis á morgun. Lægir seint annað kvöld. Gasmengunin berst til suðurs og má því búast við að hennar verði vart á Suðurstrandarvegi og á gönguleiðum að gosstöðvunum.
Spá gerð: 17.07.2023 08:02. Gildir til: 18.07.2023 23:59.

Tilkynninguna í heild sinni má sjá hér að neðan.

„Góðan dag.

Lokað er að gosstöðvunum.  Staðan verður endurmetin klukkan eitt í dag eftir fund viðbragðsaðila.

Reykur frá gróðureldum berst yfir gönguleið að gosstöðvum.  Við þessar aðstæður getur lögreglustjóri ekki tryggt öryggi þeirra sem inn á svæðið fara. 

Nú er unnið að því að slökkva í gróðureldum norðaustan við Keili í átt að útsýnisstað við Hraunsels – Vatnsfell.   Þyrla landhelgisgæslunnar kemur sem fyrr að slökkvistarfi.

Þrátt fyrir að lokað sé inn á svæðið þurftu björgunarsveitir eftir sem áður að leita að tveimur ferðamönnum í nótt. Karlmanni á fertugsaldri sem fannst á Höskuldarvallavegi á sjötta tímanum í morgun og konu sem fannst austan við Keili á þriðja tímanum í nótt. 

Spá veðurvaktar um gasdreifingu í dag:

Norðan og norðvestan 5-8 m/s, en bætir heldur í vind síðdegis á morgun. Lægir seint annað kvöld. Gasmengunin berst til suðurs og má því búast við að hennar verði vart á Suðurstrandarvegi og á gönguleiðum að gosstöðvunum.

Spá gerð: 17.07.2023 08:02. Gildir til: 18.07.2023 23:59.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert