Elísa A. Eyvindsdóttir
Flæði kvikunnar sem kemur upp úr eldgosinu við Litla-Hrút er stöðugt, að sögn Benedikts Gunnars Ófeigssonar, sérfræðings á sviði jarðskorpuhreyfinga á Veðurstofu Íslands, og heldur það áfram að renna til suðurs. Engin leið sé að spá hversu lengi muni halda áfram að gjósa en í dag er vika liðin frá því að gosið hófst.
Vel hefur tekist að slökkva gróðureldana við gosstöðvarnar að sögn Einars Sveins Jónssonar, slökkviliðsstjóra í Grindavík, en búið er að slökkva eldana frá hættusvæðinu við gíginn og að Litla-Hrút. Er því aðeins eftir að slökkva elda austan við gosstöðvarnar.
Mikið hefur verið um mengun á gossvæðinu vegna eldanna en að sögn Bjarka Þorlákssonar, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands, verður vindur hægari í dag en hefur verið seinustu daga og því reiknað með að mengunin frá gosstöðvunum og gróðureldunum færist suður í átt að Suðurstrandarvegi og gönguleiðinni að gosstöðvunum. Lokað hefur verið fyrir aðgengi að gosstöðvunum frá því á fimmtudaginn en lögreglustjórinn á Suðurnesjum metur stöðuna á fundi snemma í dag.