Mesti sinubruni seinni tíma

mbl.is/Kristinn Magnússon

Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, segir sinueldana við gosstöðvarnar vera eina þá mestu sem verið hafi á Íslandi.

Jaðar sinueldanna mælist á bilinu 5-8 kílómetrar og sé því gríðarlega mikið svæði undir. Ármann veltir fyrir sér í samtali við mbl.is hvort of seint hafi verið gripið til aðgerða til að ráða niðurlögum eldanna.

„Við erum hér á norðurhjara veraldar og þegar gróður skemmist svona mikið má búast við því að við taki uppblástur, og við getum verið að glíma við afleiðingarnar í mörg ár.“

Sinureykurinn hættulegastur

Ármann segir vegfarendur á gossvæðum standa mun meiri ógn af reyknum sem hlýst af sinueldum heldur en af mögulegum lofttegundum sem koma úr gosinu.  

mbl.is/Hákon

„Þessir sinueldar eru baneitraðir. Þeir innihalda krabbameinsvaldandi lofttegundir og fínagnir sem komast í öndunarfæri fólks. Þegar fólk er búið að vera meira en korter í þessum reyk er það komið með væg einkenni reykeitrunar. Og ef fólk er lengur er það komið með alvarleg einkenni.“

Náist að ná tökum á sinueldunum hefur Ármann ekki miklar áhyggjur að þeir taki sig upp aftur. Til þess þyrfti hraunið að breyta um stefnu og fara yfir óbrunnið svæði. Það yrði auðveldara að eiga við heldur en það flæmi sem hefur verið undanfarna daga.

Ólíklegt að gosið dragist á langinn

Ármann sagðist ekki vera með nýjar upplýsingar um framgang gossins. Unnið hafi verið á laugardaginn við að safna gögnum en gærdagurinn hafi verið frídagur, enda reyni á að vera langdvölum innan um allan þennan reyk. Hann sagði að unnið yrði úr þeim gögnum í dag og eins verði mælt frekar í dag og unnið úr þeim gögnum í nótt, þannig að gleggri mynd ætti að liggja fyrir á þriðjudagsmorgni.

Ármann Höskuldsson.
Ármann Höskuldsson. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Hann telur að hraunið haldi áfram að renna inn í Meradali og þegar þar hefur fyllst leiti það leiðar þaðan út eftir tæpa viku. Um líftíma gossins segir Ármann: „Þetta gos er miklu kröftugra en hin tvö þannig að það er ólíklegra að þetta dragist eitthvað á langinn. Má ímynda sér 2-3 vikur.“

„Galgopar geta skemmt fyrir"

Ármann telur ekkert því til fyrirstöðu að fólk geti skoðað gosið um leið og böndum hefur verið komið á sinueldana og svo lengi sem að fólk fari að öllu með gát. „Galgopar geta skemmt fyrir, því þá hræðast viðbragðsaðilar og loka svæðinu.“

Hann sagðist ekki hafa orðið var við umferð óviðkomandi um helgina og svo virðist sem fólk virði yfirstandandi lokun. Þeir sem heimsótt hafi gosið og fundið áhrif sinureyksins hafi skilið ástæðu þess að halda sig fjarri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert