Opnað hefur verið inn á svæðið og er Meradalaleið nú opin

Búið er að opna á nýjan leik.
Búið er að opna á nýjan leik. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan á Suðurnesjum hefur ákveðið að opna fyrir aðgengi að gossvæðinu og er Meradalaleið nú opin.  

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu. 

Hún er svohljóðandi:

„Ríkislögreglustjóri lýsir yfir almannavarnastigi í samráði við viðkomandi lögreglustjóra.

Við upphaf eldgossins við fjallið Litla-Hrút 10. júlí sl. lýsti ríkislögreglustjóri yfir hættustigi. Var það gert með hliðsjón af alvarleika atburða og þörf á nauðsynlegum viðbúnaði viðbragðsaðila.

Hættustund hefst þegar hættustigi eða neyðarstigi almannavarna er lýst yfir og lýkur þegar hættustigi eða neyðarstigi er aflýst.

Á hættustundu virkjast valdheimildir sem kveðið er á um lögum um almannavarnir.  Á hættustundu er lögreglustjóra heimilt að ákveða að taka í sínar hendur umferðarstjórn, banna dvöl eða umferð á ákveðnum svæðum svo sem með því að girða af eða hindra umferð um þau, þ.m.t. tilteknar fasteignir, taka í sínar vörslur hættulega muni, vísa á brott eða fjarlægja fólk.  Fyrirmælum þessu er öllum skylt að hlíta.

Meðfylgjandi kort sýnir gönguleiðir og skilgreint hættusvæði að mati Veðurstofu Íslands.

Það er ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum að banna dvöl eða umferð almennings á skilgreindu hættusvæði samkvæmt meðfylgjandi korti.

Slökkvistarf heldur áfram en talið er óhætt að hleypa fólki inn á Meradalaleið. Lögregla, landverðir og björgunarsveitir verða á svæðinu en lögð er áhersla á að fólk fari ekki inn á skilgreint hættusvæði.

Spá veðurvaktar um gasdreifingu:

Norðan og norðvestan 5-8 m/s, en bætir heldur í vind síðdegis á morgun. Lægir seint annað kvöld. Gasmengunin berst til suðurs og má því búast við að hennar verði vart á Suðurstrandarvegi og á gönguleiðum að gosstöðvunum.
Spá gerð: 17.07.2023 08:02. Gildir til: 18.07.2023 23:59.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert