„Það er ástæða fyrir að Spánverjar taka Siesta“

Miklar hitabylgjur geisa um heim allan og því mikilvægt að …
Miklar hitabylgjur geisa um heim allan og því mikilvægt að óvanir Íslendingar á ferðalagi kynni sér nokkur heilræði varðandi sól og hita. AFP

Helga María Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur hjá upplýsingamiðstöð heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, biðlar til Íslendinga á ferðalagi að nýta sér kunnáttu heimamanna þegar kemur að sólinni og vera vakandi fyrir sólbruna og sólsting.

Miklar hitabylgjur geisa nú í Evrópu og víðar um heim, en alþjóðlegt hitamet var slegið í júní. Margir Íslendingar eru á ferðalagi erlendis um þessar mundir en á Suðurlandinu er einnig sól og blíða. Íslendingar kallast þó seint reynslumikil þjóð þegar kemur að sól og hita og því vert að hafa varann á í sumar. 

Helga María Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur á upplýsingamiðstöð heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Helga María Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur á upplýsingamiðstöð heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Halda sig frá áfengi og koffíni

„Það er best að taka bara lókalinn á þetta. Það er ástæða fyrir því að Spánverjar taka siesta,“ segir Helga. Best sé að fara fyrr af stað á morgnanna, halda sig innandyra í kælingu yfir heitasta tímann og halda svo aftur út á kvöldin.

Helga bendir á mikilvægi þess að nota sólarvörn og að drekka nægilegt vatn eða jafnvel íþróttadrykki eins og Poweraid-drykk sem inniheldur sykur og sölt. Hún segir best að hafa vatnsbrúsa ávalt innan handar og jafnvel saltkex eða annað slíkt til að halda sér vel nærðum.

Þá segir Helga einnig gott að halda sig frá áfengum drykkjum og koffíni yfir heitasta tímann, þar sem bæði hafi vatnslosandi áhrif á líkamann, en mikilvægt er að binda vökva í líkamanum í hita.

Erum ekki reynslumikil í góðu veðri

Hún segir einnig gott fyrir fólk með ljósa húð að halda sig frá beinu sólarljósi eins mikið og hægt er t.d. með því að klæðast léttum hvítum fatnaði, nota hatta og sólhlífar. Þá minnir hún á mikilvægi þess að nota sólarvörn undir léttum fatnaði, þar sem auðveldlega sé hægt að brenna í gegn um hann. 

„Við erum ekki með mikla reynslu af góðu veðri, þannig það er um að gera að frekar sleppa að brenna og hylja húðina meira.“

„Svo eins og með lítil börn þá vill maður frekar bara setja vel af vörninni og sleppa því að vera í beinni sól,“ segir Helga og segir gott að vera í stuttermabol í sjónum út af speglun frá vatninu

„Eins og við þekkjum úr sundi og sjó þá er þessi speglun og sjórinn getur skolað vörnina af. Þannig ef maður ætlar að vera með krökkunum að leika í vatninu þá er gott að vera bara í stuttermabol yfir sundfötin til að verja axlir og svoleiðis.“

Helga María ítrekar mikilvægi þess að nota sólarvörn og forðast …
Helga María ítrekar mikilvægi þess að nota sólarvörn og forðast beint sólarljós. AFP

Mikilvægt að vera vakandi fyrir einkennum sólstings

Aðspurð hvað fólk þurfi að varast í hitanum segir Helga einnig mikilvægt að vera vakandi fyrir sólsting eða hitaslagi. Margir Íslendingar séu óvanir svo miklum hita að sólstingur geti hlotist af og séu því ekki alltaf meðvitaðir um einkennin. 

Sólstingur er skyndileg örmögnun þegar líkamshiti er orðinn of hár. Orsökin geta til dæmis verið sterkt sólskin eða hár lofthiti, en þá verður truflun í kælikerfi líkamans sem nær ekki að kæla sig með því að svitna. 

Að sögn Helgu er mikilvægt að vera vakandi fyrir hækkandi líkamshita, hraðri öndun eða hjartslætti, ógleði, hausverk, svima og jafnvel útbrotum. Mikilvægt er í slíkum tilfellum að flytja einstaklinginn á kaldann stað eða í skugga og kæla með vatni eða öðru slíku. Alvarlegri einkenni eru skert meðvitund, krampar og skortur á samhæfingu, en ef til slíkra einkenna kemur segir Helga best að leita til læknis.

Sumir freistast til að vera of lengi í sólinni

Að sögn Helgu hefur fólk haft samband við heilsugæslu í auknum mæli í sumar vegna sólbruna og vanlíðan, bæði hér á landi og frá útlöndum. 

Helga hvetur fólk til að leita ráðlegginga í síma eða á netspjalli heilsugæslunnar vegna sólbruna eða hitaörmögnunar. Á netspjallinu sé til að mynda hægt að senda myndir af sólbruna sem hjálpi starfsfólki heilsugæslunnar að veita ráðleggingar um hvort viðkomandi þurfi að leita sér frekari læknisaðstoðar. 

Hún segir það tiltölulega nýtt að þurfa að veita slíkar ráðleggingar hér á landi en veðrið hafi verið svo gott að undanförnu að fólk þurfi að vera meira á varðbergi. Stundum taki fólk jafnvel ekki eftir því að það sé að brenna, þar sem oft sé kaldur gustur í loftinu. 

„Auðvitað tökum við því fagnandi að fá loksins gott veður, en sumir hafa freistast til að vera aðeins of lengi í sólinni heldur en þeir ættu.“

Hægt er að hafa samband við heilsugæsluna í síma 1700 eða á netspjalli þeirra á heilsugaeslan.is. 

Hægt er að lesa um hitaslag hér og nánar um sólbruna hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert