Ferðamenn á Íslandi þurfa nú að borga gesta-, svæðis- eða þjónustugjöld við helstu náttúruperlurnar víða um landið. Kostar það til dæmis 1.000 krónur að leggja fólksbíl á bílastæðinu við gosstöðvarnar á Reykjanesi eða við Skaftafell í Vatnajökulsþjóðgarði.
Morgunblaðið greindi frá því í liðinni viku að nú standi til að taka upp aðstöðugjald fyrir afnot af bílastæðunum við Reynisfjöru í næstu viku. Þá mun þurfa að greiða 1.000 krónur fyrir að leggja fólksbíl á neðra bílastæði svæðisins en 750 krónur sé lagt á því efra. Annað gjald verður fyrir rútur og önnur stærri ökutæki.
Í dag eru gesta- og svæðisgjöld einnig innheimt í þjóðgarðinum á Þingvöllum og Vatnajökulsþjóðgarði. Hins vegar er ekki gjaldskylda á friðlýstum svæðum sem eru í umsjón Umhverfisstofnunar. Á þingvöllum kostar 750 krónur að legga fólksbifreið en allt að 3.500 krónur ef bíllinn rúmar fleiri en 19 manns. Kostar 1.000 krónur að leggja í Vatnajökulsþjóðgarði en allt að 8,500 krónur fyrir rútur af stærstu gerð. Auk þess kostar 650 að leggja bíl við Selafjöruna við Ytri-Tungu á sunnanverðu Snæfellsnesi.
Bílastæðaforritið Parka er gjarnan notað við náttúruperlur landsins, og jafnvel við tjaldsvæði, en þau þjónusta meðal annars bílastæðin við Fjaðrárgljúfur, sem hóf gjaldskyldu um mánaðarmótin og kostar nú 1.000 krónur að leggja fólksbifreið á bílastæðunum þar. Parka þjónustar einnig bílastæðin við Jökulsárlón, Brúarfoss, Sólheimajökul, Sólheimasand, Kvernufoss og við gönguleiðir að gosstöðvunum á Reykjanesskaga og kostar það í kring um 750-1.000 krónur að leggja fólksbifreið á bílastæðum tilheyrandi þeim ferðamannastöðum.
Þegar tók að gjósa í Geldingadölum árið 2021 tóku landeigendur að Hrauni ákvörðun um að hefja gjaldskyldu við bílastæðin við gönguleiðina að eldgosasvæðinu. Sú gjaldskylda er enn í gildi og kostar 1.000 krónur að leggja fólksbifreið við gönguleiðina að eldgosinu við Litla-Hrút.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út laugardaginn 15. júlí.