Ástand vegarins líklega ekki orsök slyssins

Kort/mbl.is

Lögreglan á Vesturlandi telur að ástand Snæfellsnessvegar hafi ekki verið ástæða banaslyssins í umferðinni sem varð við Hítará í gær.

Við færslu á Facebook-síðu lögreglunnar á Vesturlandi, þar sem greint var frá slysinu í gær, var birt athugasemd þar sem einstaklingur benti á að það hefði orðið vart við malbiksblæðingar víða á Mýrunum í gær.

Í samtali við mbl.is segir lögreglan að blæðingar séu ekki meiri á þessum vegarkafla en gengur og gerist í vegakerfinu. Því sé ástand vegarins ekki rannsakað sem sérstakur orsakaþáttur.

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, tekur undir þetta mat lögreglu.

Nú hafa orðið þrjú banaslys með stuttu millibili í umferðinni og virðist fyrsta skoðun leiða það í ljós að ástand vega hafi ekki verið afgerandi ástæða í neinu þeirra tilvika.

Þrjú banaslys í júlí

Fyrr í þessum mánuði lést ökumaður vélhjóls er hann lenti utan vegar við Laugarvatnsveg. Ungur ökumaður lét svo lífið í bílveltu á Þrengslavegi í síðustu viku. Loks var alvarlegt bílslys við Hítará í gær þar sem einn lést og nokkrir slösuðust.

G. Pétur segir í samtali við mbl.is að vegakerfið sé í stakk búið til þess að taka á móti töluverðri umferð. Aukinni umferð fylgi þó alltaf meiri slysahætta.

Vegagerðin vilji þó gjarnan komast í verkefni til að bæta umferðaröryggi, svo sem í fækkun einbreiðra brúa og í verkefni sem snúa að breikkun og styrkingu vega og í það að bæta slitlagið. Stjórnvöld hafi skilning á því að bæta þurfi innviði til að taka á móti auknum fjölda ferðamanna og Vegagerðin skilji sömuleiðis að ekki sé endalausu fé til að dreifa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert