„Við vonuðum bara að okkur tækist að lenda“ segir Cheri Sillard, ferðamaður frá Bandaríkjunum, en eldgosið við Litla-Hrút tók að gjósa rétt áður en hún lenti á Íslandi.
Blaðamaður mbl.is gaf sig á tal við Cheri við gosstöðvarnar þar sem hún var komin til að berja gosið augum. Þótti blaðamanni og ljósmyndara hún sérstaklega áberandi þar sem hún var klædd áberandi rauðri treyju með vörumerki Cheetos-snakksins.
Áletrun treyjunnar „Flaming hot“, sem á íslensku mætti þýða sem sjóðandi heitt, er sannarlega viðeigandi fyrir tilefnið.
Cheri var á leið til Íslands þegar gosið hófst, en hefur síðan beðið eftir að gönguleiðir opnuðu svo hún kæmist nær. Hún og ferðafélagi hennar halda heim á morgun og var hún því fegin frétta að gönguleiðin opnaði í gær.
Cheri segir þetta ekki í fyrsta sinn sem hún hafi upplifað eldgos, en hún hefur áður séð eldgos á Havaí í Kyrrahafinu. Hún kveðst þó engan veginn þreytt á eldgosum og segir upplifunina enn vera „once in a lifetime“, eða eitthvað sem maður upplifir bara einu sinni á ævinni þó vissulega hafi hún nú upplifað að sjá tvö eldgos.
„Mér finnst ég svo heppin, maður þarf að vera á réttum stað á réttum tíma til að sjá eldgos og ég hef verið svo heppin að sjá tvö.“
Aðspurð segir hún eldgosin tvö ansi ólík, en hún hafi bæði komist örlítið nær eldgosinu á Havaí og séð meira glóandi hraun. Að þessu sinni sé glóandi hraunið í meiri fjarlægð, en hún kveðst fegin að leiðin að gosinu við Litla-Hrút hafi verið auðveld og örugg.