Hópur fólks gekk upp að gíg eldgossins við Litla-Hrút í gærkvöldi. Lögregla reyndi að hafa afskipti af fólkinu en að sögn Jóns Þórs Víglundssonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, neyddist lögregla til að snúa við vegna hættulegra gasmælinga.
Í samtali við mbl.is segir Jón Þór þó flesta hafa fylgt fyrirmælum við gosstöðvarnar þó sumir hafi valið að hunsa þau.
„Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur náttúrulega þrengt svæðið og skilgreint svæðið alveg upp við gíginn sem hættusvæði og lokað. Mér sýndist flestir virða það. Ekki allir eins og gengur, en yfirgnæfandi meirihluti.“
Hann segir hópinn hafa verið langt komin inn á hættusvæði þegar lögreglu var gert viðvart. Lögreglumenn hafi lagt af stað til að hafa afskipti af fólkinu en hafi á endanum neyðst til að snúa við til að vernda eigin heilsu.
„Lögreglumenn ætluðu að fara og ýta við þeim, en snéru við að því að gasmælarnir sem þau báru fóru að pípa á þau og sýna háar mælingar, þannig að þeir snéru við.“
Hann segir lögregluna þó hafa komið skilaboðum til fólksins að þau væru á hættulegu bannsvæði, en að fólkið hafi látið fyrirmælin sem vind um eyru þjóta.
Jón Þór segir það lýsandi fyrir hættustig svæðisins að lögregla hætti sér ekki inn á svæðið heldur snúi frekar við. „Þetta er ekki að ástæðulausu.“
Hann ítrekar þó að fólk hafi að mestu virt reglur og segir mikinn fjölda fólks hafa sótt staðinn um leið og svæðið opnaði. Á einu tímabili hafi verið um 800 bílar á bílastæðinu við gosstöðvarnar, en hann telur að um 2000 manns hafi heimsótt svæðið.
Hér fyrir neðan má sjá merktar gönguleiðir á korti frá lögreglunni á Suðurnesjum.