Mesti mosabruni frá upphafi skráninga

Gosið er nú vikugamalt.
Gosið er nú vikugamalt. mbl.is/Árni Sæberg

Gróðureldarnir sem nú loga á gossvæðinu við Litla-Hrút á Reykjanesi hafa þegar valdið mesta mosabruna sem orðið hefur frá því að skráningar hófust, að mati sérfæðinga Náttúrufræðistofnunar Íslands (NÍ) sem skoðuðu hluta svæðisins fyrir skömmu í því skyni að leggja mat á áhrif eldanna á gróður.

Frá þessu greinir á vef stofnunarinnar þar sem fram kemur að ekki sé ljóst hve stórt svæði hafi orðið eldinum að bráð. Til marks um útbreiðsluhraða gróðureldanna segja sérfræðingarnir að loftmyndir sem starfsmenn NÍ tóku 11. júlí sýni að þá hafi 15 hektarar verið brunnir, en aðeins tveim dögum síðar, 13. júlí, hafi 95 hektarar til viðbótar verið brunnir. Stórt svæði hafi brunnið síðan þá.

Mikilvægt sé að hamla útbreiðslu gróðureldanna, en þegar moslendi verður eldi að bráð verði mun meiri skemmdir á gróðri en þegar gras- eða mýrlendi brennur. Eftir mosabruna sé land albrunnið, gróðurþekjan hverfi og jarðvegur verði óvarinn. Því skapist hætta á að landið geti blásið upp í kjölfarið, þar sem jarðvegurinn sé fokgjarn vegna eldvirkni svæðisins. Mikilvægt sé fyrir umhverfið að ráða niðurlögum eldsins, því við gróðurelda verði mikil losun gróðurhúsalofttegunda.

Meira má lesa í Morgunblaði dagsins. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert