Vegaframkvæmdir á þjóðvegi 1 hafa orðið til þess að umferð hefur tímabundið verið beint um tengivegi í Flóanum. Íbúar kvarta undan litlum undirbúningi og að lélegir vegir sveitarfélagsins geti illa borið svo þunga umferð.
Guðrún Hjörleifsdóttir, ábúandi í Súluholti, segir reykjarmökkkinn standa úr veginum allan tímann sem hjáleið var um veginn með tilheyrandi óþægindum. Ryk hafi farið inn í hús og ekki hafi sést á milli bæja, sem þó standi nokkuð þétt saman.
Ástandið hafi þó eitthvað skánað þegar Vegagerðin fór loks að bleyta veginn.
Hulda Kristjánsdóttir, sveitarstjóri Flóahrepps, segir í samtali við mbl.is ástand vega í sveitarfélaginu vera ákaflega slæmt og hafi verið þannig áratugum saman. Engin loforð hafa verið gefin um úrbætur og aðeins lágmarks viðhaldi hefur verið sinnt.
„Því miður er ansi algengt að slys verði á þjóðvegi 1, á kaflanum frá Selfossi að Þjórsárbrú, og því mjög algengt að hjáleiðum sé beint í gegnum Flóahrepp. Sé horft til öryggissjónarmiða þá fáum við allan skalann af ökumönnum, líka ferðamenn sem hafa litla reynslu af því að keyra eftir svona mjóum og slæmum vegum.“
Að auki hafi íbúum sveitarfélagsins fjölgað á síðustu árum, bara við þann veghluta sem nýttur var í gær, hafi íbúum fjölgað um einhverja tugi. Íbúar nágrannasveitarfélaga eiga líka erindi um veginn því þar liggur leið til losunar á lífrænum úrgangi, svo sem garðagróðri og þvíumlíku.
Vegirnir torvelda líka þjónustu í sveitarfélaginu. „Við keyrum börn í skóla 180 daga á ári og við þurfum að keppast við það að halda okkur við lög og reglugerðir varðandi tíma barna í skólabíl. Þessir vegir gera okkur mjög erfitt með það. Ef við hugsum um hagsmuni barnanna hvað það varðar, þá eru þessar vegasamgöngur ekki boðlegar.“
Bútasaumi sé beitt við viðhald og framkvæmdir en ekki hefur verið á áætlun Vegagerðarinnar að malbika einhverja lengri vegakafla í Flóanum. Aðgerðir eins og rykbinding duga skammt áður en allt er komið aftur í sama farið.