„Ógeðslegt“ í 52 stiga hita

Hitamælar víðsvegar um tyrkneska bæinn Didim mældu hátt í 52 …
Hitamælar víðsvegar um tyrkneska bæinn Didim mældu hátt í 52 stiga hita í gær. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hef aldrei áður saknað grámygluveðursins í Reykjavík. Þetta er fyrsta sinn sem mig dreymir lélega íslenska sumarið. Ég hélt að ég myndi aldrei segja þetta.

Þetta segir hún Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, við mbl.is, en hún er á leiðinni heim frá Didim í Tyrklandi er hún svarar símtali blaðamanns. Fór hún þangað með fjölskyldu sinni að heimsækja foreldra Ragnhildar, sem eiga hús í Didim.

Ragnhildur segir að 38-52 stiga hiti hafi mælst á mælunum víðs vegar um bæinn í gær.

„Þetta var ógeðslegt,“ segir Ragnhildur um veður gærdagsins. „Þetta er eins og að vera úti í sánu. Þetta er heitara en hot-jóga tímar sem ég hef farið í.“

„Svitnar á stöðum sem þú vissir ekki að þú gætir svitnað á“

„Maður ætlar svo að fara út og setjast á einhverja veitingastaði en flestir eru ekki með loftræstingu. Þannig það perlar af þér svitinn og þú svitnar á stöðum sem þú vissir ekki að þú gætir svitnað á… allt yfir borgaranum,“ segir Ragnhildur.

Didim er vinsæll ferðamannastaður meðal Tyrkja og hafa foreldrar Ragnhildar átt hús í bænum í nokkur ár. Segir Ragnhildur að faðir sinn kalli bæinn „staðinn sem Tyrkir fara á til þess að fara í sólarlandafrí“. Bendir hún á að foreldrar hennar séu því nú þegar mjög vön miklu hitaveðri.

Faðir Ragnhildar, Vilhjálmur Egilsson, og dóttir hennar, Ragnhildu Erla á …
Faðir Ragnhildar, Vilhjálmur Egilsson, og dóttir hennar, Ragnhildu Erla á pallinum við húsið í Didim. Ljósmynd/Aðsend

Ragnhildur segist því hafa lært ýmsar aðferðir frá foreldrum til að hjálpa við að lifa hitann af. Nefnir hún til dæmis það að vera ekki úti í kringum hádegisbilið, að borða mikið salt, að drekka mikið vatn, hafa lítinn hitamun á milli loftkælingar og hitastigs úti. Einnig nefnir hún að maður eigi ekki endilega drekka kalda drykki, heldur frekar heita.

Sést á dýrunum

Hún segir að það sé mikið af flækingsköttum í bænum sem sníkja mat og vatn frá íbúum og verslunum víða um bæinn. En jafnvel kettirnir héldu sig í skugganum á allra heitustu dögunum og sáust þeir ekki á flakki um göturnar fyrr en seinna um kvöldið, að sögn Ragnhildar

„Á þessum dögum sem voru hvað allra heitastir mættu kettirnir ekki,“ segir hún. „Þeir mættu ekki fyrir utan dyrnar á morgnana eins og venjulega. Þeir sáust ekki fyrr en seinna um kvöldið, þegar tók að kólna aðeins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert